Krefjast meiri launahækkana

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Rax / Ragnar Axelsson

Alþýðusamband Íslands mun krefjast meiri launahækkana 1. febrúar en samið var um í kjarasamningunum 5. maí í fyrrasumar. Atvinnulífið hafi hækkað verð á vörum og þjónustu og m.a. vegna þess séu forsendur samninga brostnar. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir formenn aðildarfélaga ASÍ einhuga.

Samkvæmt kjarasamningunum eiga laun að hækka um 3,25% 1. febrúar nk., hækkun sem Gylfi telur ekki duga til að verja kaupmátt launþega.

Formenn aðildarfélaga ASÍ funduðu í dag og segir Gylfi fundarmenn hafa verið samstiga um að krefjast meiri hækkana.

„Við lítum svo á að forsendur kjarasamninganna séu brostnar, þó að allar líkur séu á að hin almenna kaupmáttarviðmiðun standist. Verðbólgu- og gengisforsendur samninganna hafa hins vegar brostið. Í því felst að fyrirtæki í landinu og sveitarfélög og ríkið hafa leyst úr sínum vanda með því að hækka verð á vörum og þjónustu umfram það sem við gerðum ráð fyrir.

Þegar gengi krónunnar er svona veikt hefur það tilhneigingu til að bæta hag útgerðarinnar en ekki heimilanna. Við teljum að í samskiptum okkar við atvinnurekendur skorti svolítið upp á að markmið þessa samnings gangi eftir. Það er líka ljóst að forsendur í samskiptum launafólks og stjórnvalda eru líka brostnar. Einstaka ákvarðanir eða loforð um ákvarðanir hafa ekki skilað sér.“

Ekkert vantalað við ríkisstjórnina

„Það var niðurstaða okkar á fundinum í dag að við ættum ekkert vantalað við þessa ríkisstjórn. Við munum við endurskoðun samninganna ekki freista það að ræða við ríkisstjórnina. Við metum það enda svo að það þjóni engum tilgangi. Við erum búnir að reyna það til þrautar. Tími ríkisstjórnarinnar kom og fór.

Við teljum í reynd að þessi samningur sé ónýtur. Við munum einbeita okkur að viðræðum við atvinnurekendur á þeirri forsendu að við teljum mikilvægt að verja kaupmátt okkar félagsmanna vegna ársins 2013. Það felst ekki aðeins í því að launahækkanir verði efndar heldur að það verði bætt í þær. Verð á vörum og þjónustu hefur hækkað meira en við gerðum ráð fyrir. Það hallar á launþega. Það þarf meiri launahækkun en er í pottinum.

Viðfangsefni okkar verður að verja kaupmátt okkar félagsmanna árið 2013. Umræða um fyrirkomulag efnahagsmála í framtíðinni, gengi, fjárfestingar og efnahagsstefnu verður að bíða nýrrar ríkisstjórnar. Það verður ekki frekar rætt við þessa ríkisstjórn.“ 

Samkvæmt samningunum hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 4,25% 1. júní 2011, um 3,5% 1. febrúar sl. og eiga svo að hækka um 3,25% 1. febrúar nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert