Persónuvernd gagnrýnir Hagstofuna

Persónuvernd gagnrýnir Hagstofu Íslands í nýjum úrskurði, en kona sem kvartaði til Persónuverndar segir að Hagstofan hafi reynt að afla upplýsinga í þágu vinnumarkaðsrannsóknar og rannsóknar á notkun á upplýsingatækni í gegnum dóttur sína og vinnuveitenda.

Konan segir að Hagstofan hefði verið of aðgangshörð við að fá sig til þátttöku í rannsóknunum. Persónuvernd féllst á þetta með henni og taldi ekki liggja fyrir að vinnsla Hagstofunnar hafi samrýmst lögum um öflun og meðferð persónuupplýsinga.

Konan lýsir atvikum svo að sér hafi borist kynningar á rannsóknunum í tveimur bréfum með um það bil viku millibili. Þar sem hún taki aldrei þátt í rannsóknum sem þessum hafi bréfunum verið hent. Hinn 2. maí sl. hafi sér borist bréf frá Hagstofunni þar sem kvartað hafi verið yfir að ekki hafi náðst í hana í síma og þess verið óskað að hún hefði samband símleiðis við tiltekinn starfsmann. Hún hafi ekki orðið við þeirri beiðni, en degi síðar hafi dóttir hennar fengið símhringingu frá Hagstofunni. Hafi þess verið óskað að hún svaraði spurningum fyrir hönd móður sinnar en hún ekki sagst geta það. Um kvöldið hafi verið hringt í dótturina tvisvar sinnum til viðbótar, í seinna skiptið um klukkan níu um kvöldið. Þess hafi verið óskað að hún myndi svara fyrir móður sína. Hún hafi neitað því og þá verið beðin um að gefa upp símanúmer móður sinnar. Því hafi hún einnig neitað þar sem hún hefði ekki heimild til þess.

Í svörum Hagstofunnar segir að sérhver sem lendi í úrtaki rannsókna Hagstofu Íslands hafi óskoraða heimild til að neita þátttöku í rannsókn í heild eða að hluta. Í því tilviki sem hér um ræði hafi Hagstofa Íslands aldrei fengið samband við konuna né heldur hafi hún haft samband við stofnunina. Hagstofan hafi því haldið áfram tilraunum sínum við að ná sambandi enda í góðri trú um að tæknilegar ástæður lægju að baki.

„Hagstofa Íslands harmar að úrtaksaðili upplifi vinnubrögð stofnunarinnar sem einelti/áreitni en ítrekar að hægt er að neita þátttöku með því að tilkynna Hagstofu Íslands með símtali, rafrænum pósti eða almennum pósti að úrtaksaðili hafi ekki áhuga á að taka þátt í rannsókn. Stofnunin tekur allar ábendingar og athugasemdir alvarlega og í framhaldi af þessari ábendingu mun hún fara yfir vinnubrögð og vinnuferli við framkvæmd rannsókna. Sérstaklega verður þar horft til kynningarefnis og hvort einstaklingar veljist í úrtak fleiri rannsókna á sama tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka