Íslendingar keypt 4.000 geitur

ACT/Paul Jeffrey

Um síðustu jól var geitin vinsælasta jólagjöfin hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Á gjafbréfasíðunni, Gjöf sem gefur, seldust fyrir síðustu jól meira en 500 geitur. Salan fer mjög vel af stað í ár en hænur og vatn er líka mjög vinsælt. Einnig er hægt að kaupa gjafabréf til styrktar verkefnum á Íslandi t.d. til að styrkja börn og ungmenni vegna skólagöngu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Fjölbreytt gjafabréf eru í boði á gjofsemgefur.is, frá sparhlóðum á 1.600 krónur og upp í heilann brunn á 180.000 krónur. Mörg fyrirtæki og stofnanir eru einnig farin að nýta sér gjafabréfin til að senda viðskiptavinum sínum jólakveðju og um leið láta gott af sér leiða.

„Það skemmtilega við gjafabréfin er að allir eru ánægðir, þeir sem fá jólakveðjuna  og þeir sem eiga erfitt og njóta góðs af. Geitin gefur af sér mjólk, kjöt, tað til áburðar, afkvæmi og skinn. Taðið bætir uppskeruna, fæðan verður fjölbreyttari með prótínum geitaafurðanna og heilsan batnar. Þannig verður afkoma fátækrar fjölskyldu í Malaví eða Úganda öruggari og lífsgæðin meiri. Og jólin gleðilegri hjá þeim sem gefur,“ segir í tilkynningunni.

Á síðustu fimm árum hafa 3.000 hænur og 4.000 geitur verið seldar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert