Verð á jólamat hefur hækkað umtalsvert síðan í fyrra, að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í verslunum á þriðjudag. Verð hefur hækkað um allt að 70%, en algengast er að sjá um 5-10% hækkun á vöruverði. Hagkaup eru eina verslunin þar sem sjáanleg lækkun er á vöruverði síðan í fyrra, en í um helmingi tilvika hefur verð á vöru í samanburðinum lækkað og má benda á að meðan Hagkaup lækka verðið á t.d. reyktu jólakjöti á milli ára, hækkar það í hinum verslununum sem eru í samanburðinum.
Birkireykt úrbeinað hangilæri frá SS er á borðum margra heimila nú yfir jólahátíðina og hefur það hækkað töluvert í verði síðan í desember 2011. Mesta hækkunin hefur orðið hjá Nettó en þar kostaði kílóið 2.979 kr. í fyrra en kostar nú 3.459 kr. sem er 16% hækkun, hjá Bónus og Krónunni kostaði kílóið 2.889 kr. í fyrra en kostar nú 3.279 kr. sem er 13% hækkun, hjá Fjarðarkaupum kostaði kílóið 3.393 kr. í fyrra en kostar nú 3.589 kr. sem er 6% hækkun. Hangikjötið lækkaði hins vegar í verði um eina krónu hjá Hagkaupum úr 3.299 kr. í 3.298 kr.
Sem dæmi um miklar hækkanir má nefna að verð á bláberjaostaköku frá MS hefur hækkað um 25% hjá Krónunni, um 21% hjá Bónus, um 10% hjá Samkaupum-Úrvali, um 7% hjá Hagkaupum og um 6% hjá Fjarðarkaupum. Aðrar hækkanir sem benda má á eru t.d. hvít jólaterta frá Myllunni 300 g sem hefur hækkað um 13% hjá Fjarðarkaupum, 12% hjá Bónus og Nettó, um 9% hjá Krónunni en nánast staðið í stað hjá Samkaupum- Úrvali. Hjá Hagkaupum er verðið á jólatertunni það sama og í fyrra.
Einstöku lækkanir eru sjáanlegar í flestum verslununum. Þar má nefna 2 l Egils appelsín frá Ölgerðinni sem lækkað hefur í verði um 24% hjá Samkaupum-Úrvali, um 12% hjá Hagkaupum, um 7% hjá Fjarðarkaupum, um 5% hjá Bónus, um 2% hjá Krónunni en appelsínið hækkaði í verði hjá Nettó um 11%. Aðrar vörur sem hafa lækkað í verði eru t.d. Oskar villibráðarkraftur, Kristjáns laufabrauð og grafinn lax frá Eðalfiski.
Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 12. desember 2011 og 11. desember 2012. Mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum Úrval og Hagkaupum.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.