Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, var kjörinn nýr formaður stjórnar hjúkrunarheimilisins Eirar á fulltrúarráðsfundi sem lauk nú á ellefta tímanum.
„Ég er mjög ánægður með það að Jón Sigurðsson hafi verið kosinn formaður. Mér finnst það sérstaklega gott val,“ segir Magnús L. Sveinsson, fráfarandi formaður, í samtali við mbl.is. Það sé leitun að betri manni. Jón var kosinn í stjórn Eirar fyrir hönd VR.
Magnús setti fund fulltrúaráðsins kl. 9 í morgun en sat fundinn ekki, en Magnús er nú bæði farinn úr fulltrúaráði og úr stjórn Eirar.
„Við munum halda áfram að vinna að lausnum og vonandi skapast meiri friður núna um það að fókusinn verði á lausnirnar en ekki á einhver vandamál sem snúa að stjórn og stjórnsýslu hérna,“segir Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Eirar, í samtali við mbl.is. Mikilvægt sé að menn snúi sér að því að sinna skjólstæðingum Eir, bæði íbúum og starfsfólki.
Magnús segir að Jón sé með afar góðan bakgrunn og „fellur feiknalega vel inn í þetta verkefni. Nú vona ég að það verði samstaða og stjórninni beri gæfa til að snúa bökum saman að takast á við það vandamál sem þarf að takast á við, en hætti að vera með átök um menn,“ segir Magnús.
Auk Jóns voru þau Einar Jón Ólafsson, Hrönn Pétursdóttir, bæði fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Ólafur Haraldsson, fyrir hönd Blindrafélagsins og Blindravinafélags Íslands, Elínborg Magnúsdóttir, fyrir hönd Eflingar - stéttarfélags, Sveinn Guðmundsson, fyrir SÍBS, og Hákon Björnsson, fyrir hönd Mosfellsbæjar, kjörin í stjórn Eirar.
Ný stjórn mun koma saman í næstu viku til að fara yfir stöðu Eirar, ákveða næstu skref og móta stefnu varðandi áframhaldið. „Það fer fram kynning á stöðunni og upplýsa þessa nýju aðila um málið,“ segir Sigurður framkvæmdastjóri Eirar.