Veturgamall hreindýrstarfur í Norðfirði hefur flækt hönk af rafmagnsgirðingarþræði og girðingastaur á annað hornið á sér.
Fréttaritari Morgunblaðsins segir að tarfurinn hafi gengið eðlilega að mat sínum, hafi bæði krafsað og kroppað og litið dável út. Líklega hafi hann því ekki dregið staurinn lengi á eftir sér.
Jón Ágúst Jónsson, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, kom og leit á gripinn. Að höfðu samráði við reyndan hreindýraleiðsögumann var ákveðið að bíða þess að tarfurinn felldi hornin og losnaði þannig við flækjuna og girðingarstaurinn, þar sem þessi aðskotahlutur virtist ekki há honum að ráði og hann var ósár.
Tarfarnir eru þessa dagana að ljúka við að fella hornin svo tarfurinn ætti að losna við þetta jafnvel fyrir jól.
Áfram verður þó fylgst með tarfinum og athugað hvernig honum vegnar þar til hann er laus við þennan aðskotahlut.