Offita kostar þjóðarbúið 5-10 milljarða á ári

Sykur.
Sykur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

SÍBS fagnar fram komnu frumvarpi um breytingar á vörugjöldum og tollamálum, sykurskattinum.

Beinn kostnaður hins opinbera vegna offitu einnar saman er líklega um kr 5-10 milljarðar á ári, og er þá ótalinn kostnaður af öðrum afleiðingum lífsstílssjúkdóma. Lífsstíll, tóbaksreykingar, óheilsusamlegt mataræði, hreyfingarleysi og misnotkun áfengis – er stór áhættuþáttur í 2/3-hluta allra dauðsfalla og verulegum hluta örorku, og veldur bæði þjóðarbúinu og einstaklingum ómældum skaða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum sem hafa skilað umsögn um frumvarpið til Alþingis.

 „Neyslustýring með gjaldtöku er viðurkennd og virk leið til að takmarka neyslu óhollra vara, og henni er beitt á sykurvörur, alkóhól og tóbak á öllum Norðurlöndunum. Þá er það jávætt skref í sykurskattsfrumvarpinu að gert er ráð fyrir að holl matvara lækki um  300 milljónir króna á ári á sama tíma og sú óholla hækkar,“ segir í umsögn SÍBS. Samtökin telja reyndar að ganga þurfi lengra í gjaldtöku af gosdrykkjum og sætindum en frumvarpið gerir ráð fyrir, en saman standa þessir vöruflokkar undir 50% af allri neyslu Íslendinga á viðbættum sykri.

SÍBS tekur undir rökstutt viðhorf Landlæknis, að neyslustýring með skattlagningu sé áhrifarík leið til að minnka neyslu óhollra vara, bæta heilsu og draga úr útgjöldum.

Þótt í frumvarpinu séu afleiðingar þess metnar til verðlagshækkunar sem nemur kr 800 milljónum á ári, er einnig gert ráð fyrir að holl matvara lækki um 300 milljónir á ári, sem minna hefur farið fyrir í umræðunni. Þá hefur verið gerð ítarleg greining á væntum samdrætti í sölu óhollra vara.

Norðurlöndin skattleggja undantekingalaust sykur og sætindi þótt fyrirhugaðri beinni skattlagningu á viðbættan sykur hafi verið slegið á frest í Danmörku og Noregi. Því getur valkvæð leið líkt og lagt er til í frumvarpinu verið heppileg til að brúa bæði sjónarmið.

SÍBS telur að lengra þurfi að ganga í gjaldtöku af gosdrykkjum og sælgæti, og að slíkt verði bæði gert með vörugjöldum og virðisaukaskattshækkun á þessum vöruflokkum. Helmingur neyslu á viðbættum sykri stafar af neyslu gosdrykkja (30%) og sælgætis (20%).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka