Sífellt erfiðara að láta sem ekkert sé

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Skjáskot af Cnn.com

„Þessum viðræðum hefur seinkað, hugsanlega vegna deilna líkt og um makrílinn. Það verður sífellt erfiðara að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og það segir sig sjálft að refsiaðgerðir og annað slíkt getur skaðað mjög andrúmsloftið.“

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í viðtali sem birt var á vef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN í gær. Fram kemur í fréttinni að makríldeilan kynni að leiða til þess að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið yrði sett til hliðar og haft eftir Steingrími að deilan hafi kallað fram efasemdir um það hvort Íslendingar vildu ganga í sambandið.

„Makríllinn hefur komið í miklum mæli inn í íslensku efnahagslögsöguna og verið hér mánuðum saman og tekið mikið úr vistkerfinu. Fyrir vikið höfum við sem strandríki staðið fast á okkar rétti til þess að fá hlutdeild í þessum deilistofni. Þannig að Ísland á augljóslega rétt á hlutdeild,“ segir hann um stöðu deilunnar.

Einnig er rætt við Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), og haft eftir honum að Evrópusambandið verði að gera sér grein fyrir og rannsaka göngumynstur makrílsins.

„Það var meira en 1,5 milljón tonna af makríl í íslensku lögsögunni á þessu ári. Verkefnið er einfaldlega að ná samkomulagi um sanngjarna hlutdeild fyrir alla og það eru ekki 10% fyrir Ísland, Færeyjar og Rússland.“

Fréttina í heild má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka