Fram kemur á forsíðu Eyjafrétta að skotið hafi verið á rúðu á skrifstofu framkvæmdastjóra Ísfélags Vestmannaeyja. Lögreglan telur ekki að um byssuskot hafi verið að ræða. Líklegra sé að skotið hafi verið í gegnum tvöfalt glerið með stálkúlu úr einhvers konar túttubyssu. Engin kúla hefur fundist.
Fram kemur í fréttinni að málið sé nokkurra vikna gamalt en framkvæmdastjórinn ku hafa verið fjarverandi þegar atvikið gerðist. Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur fengið lögregluna í Reykjavík til liðsinnis við rannsókn málsins.
„Engin kúla hefur fundist en krafturinn hefur verið það mikill að glersalli skildi eftir ummerki á gardínu og pappírsblokk sem var fyrir innan. Ef um leikfang er að ræða er það mjög öflugt, að hafa náð að brjóta tvöfalt gler í þetta mikilli hæð,“ segir í fréttinni. Skrifstofa forstjóra er á þriðju hæð.
Nokkrir hafa verið yfirheyrðir og fram kemur að Forráðamenn Ísfélagsins líti málið alvarlegum augum. „Sama hvort þarna hafi verið um beina árás á Ísfélagið að ræða eða að einhverjir séu með túttubyssur eða annað sem er stórhættulegt.
Vilja bæði lögreglan og Ísfélagsfólk hvetja foreldra og aðra til að grípa í taumana verði þau vör við að ungmenni séu með túttubyssur eða önnur hættuleg „leikföng“ undir höndum,“ segir í fréttinni.
Fréttina má nálgast á
.