Jólavertíðin í fullum gangi

Jólaverslun landsmanna eykst með degi hverjum er dregur nær jólum.
Jólaverslun landsmanna eykst með degi hverjum er dregur nær jólum. Júlíus Sigurjónsson

Jólaverslun landsmanna er nú í fullum gangi og er mikið um að vera í verslunarmiðstöðvum höfuðborgarsvæðisins. Guðrún Örnólfsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar, segir að jólavertíðin sé komin vel í gang.

„Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur núna og það eykst með hverjum deginum sem nær dregur jólum enda opið til kl. 22 öll kvöld,“ segir Guðrún og bætir við að helgarnar séu alltaf mjög stórar í jólaversluninni í desember.

„Það skapast alltaf mikil jólastemning hérna í Smáralind með lengri afgreiðslutíma, jólaskreytingum og jólalegum uppákomum, þannig að fólk getur komið hingað til þess að komast í jólaskapið á sama tíma og það gerir jólainnkaupin,“ segir Guðrún að lokum.

Aukning í aðsókn milli ára

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir að jólaverslunin í Kringlunni hafi almennt farið mjög vel í gang: „Það er búið að vera svakalega annasamt í dag, við höfum örugglega fengið hátt í 30.000 gesti þegar yfir lýkur og það er búin að vera mikil stemning.“

„Það er aukning í aðsókn á milli ára og þá helst það allajafna í hendur við aukna verslun. Svo er stór vika framundan og Kringlan verður með opið til kl. 22 alla daga fram til jóla og til kl. 23 á Þorláksmessu,“ segir Sigurjón og bendir á að sá tími gildi um allar búðir Kringlunnar nema Vínbúðina sem hafi sinn eigin afgreiðslutíma.

Sigurjón segir að jólavertíðin hafi því farið mjög vel í gang og að aðsóknin sé mjög jöfn yfir allan afgreiðslutímann, þó að mest sé að gera á milli kl. 2 og 6. „Aðsóknin dreifist vel yfir daginn og fram á kvöld og ljóst að allir finna sér hentugan tíma til þess að ljúka jólainnkaupunum sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert