Hildur Loftsdóttir, sem er búsett í New Jersey í Bandaríkjunum, segir að undarleg stemning hafi verið ríkjandi í kjölfar fellibylsins Sandy, sem fór yfir austurströnd landsins í lok október. Hún og fjölskylda hennar sluppu vel frá óveðrinu en þau voru hins vegar án rafmagns í marga daga og úr sambandi við umheiminn.
Hildur, sem starfar hjá Scandinavia House, er búsett í bænum Bayonne í New Jersey ásamt bandarískum eiginmanni og dætrunum Oonu og Eyju. Bayonne er rétt vestan við Manhattan í New York.
Þrátt fyrir að daglegt líf sé víða að komast í samt horf þá liggja samgöngur enn niðri á stóru svæði, t.d. lestarsamgöngur. „Lestarkerfið er bara ekkert komið í lag aftur,“ segir Hildur í samtali við mbl.is
Hún segir að margir íbúar á svæðinu starfi á Manhattan og treysti á lestarsamgöngur til að komast á milli staða. Gríðarleg röskun varð á almenningssamgöngum á svæðinu í kjölfar óveðursins og að sögn Hildar þurfa margir enn í dag að taka á sig krók með rútum til að ferðast á milli staða. Það geti alveg tekið hátt í tvo til þrjá tíma fyrir fólk að komast í vinnuna.
Hún segir frá því að ein af af lestarstöðvunum sem hún fari oft um til að fara til vinnu á Manhattan, stöðin í Hoboken, verði rafmagnslaus í minnst tvo mánuði í viðbót.
Uppbyggingarstarf í kjölfar Sandy er í fullum gangi og nýverið bað Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, um að Bandaríkjaþing myndi samþykkja 60 milljarða dala fjárveitingu til vegna uppbyggingarstarfsins á þeim svæðum sem urðu verst úti, þ.e. í New York og í New Jersey.
Á miðvikudag í síðustu viku komu svo margar af frægustu rokkstjörnum samtímans fram á tónleikum í New York til að safna fé fyrir fórnarlömb fellibylsins. Paul McCartney, Bruce Springsteen, Kanye West, Jon Bon Jovi og The Rolling Stones voru á meðal þeirra sem komu fram á tónleikunum sem fóru fram í Madison Square Garden.
Aðspurð segir Hildur að ástandið í Bayonne sé nokkuð gott því Sandy hafi ekki náð að valda miklum usla þar. Þar urðu hins vegar vatnskemmdir og þá féllu bæði tré og ljósastaurar. Víða urðu skemmdir á húsum og öðrum mannvirkjum mun meiri.
„En dagsdaglega þá er þetta svona nokkurn veginn komið í lag.“
Rafmagnið fór hins vegar af svæðinu. „Við vorum rafmagnslaus mjög lengi,“ segir Hildur, en hún segir að sitt heimili hafi verið án rafmagns í um það bil níu daga.
„Fyrst var þetta bara spennandi. Svo var þetta orðið mjög þreytandi og okkur orðið mjög kalt. Mér fannst eins og okkur hefði verið hent 100 ár aftur í tímann. Við vorum ekki með sjónvarp, vorum ekki með tölvu, við vorum ekki með neitt einhvernveginn,“ segir Hildur og bætir við að hálfgerð baðstofustemning hafi skapast á kvöldin á heimilinu.
„Svo þurfti meira að segja að spara ljósið því það var ekkert hægt frá kerti eða batterí alls staðar. Það var ekkert hægt að fá. Við sátum þarna bara, prjónuðum og sögðum sögur eins og í gamla dag. Þetta var bara mjög kósí hjá okkur,“ segir Hildur.
Þá var það bót í máli að þar sem gaseldavél er á heimilinu gat fjölskyldan eldað og hitað mat.
Staðan breyttist svo til hins betra þegar rafmagnið komst aftur á.
Það að vera ekki í neinu sambandi við umheiminn var eitt það óþægilegasta við þessa upplifun að sögn Hildar. „Maður vissi að þetta var í heimsfréttunum en við vissum ekkert sjálf hvað var að gerast,“ segir hún.
„Við vissum ekkert hvernig nágrannar okkar hefðu það. Eða hvort húsin í suðurhluta bæjarins hefðu fokið. Við vissum ekki neitt. Þetta var ótrúlega óþægilegt þegar þetta var að ganga yfir.“
Þá hafi það ekki síður verið mjög óþægilegt að geta ekki látið vini og vandamenn heima á Íslandi vita af sér. „Fólk var mjög áhyggjufullt. Það heyrðist ekkert í manni, hvorki á Facebook né í síma.“
Spurð út í veðrið segist Hildur hafa upplifað það eins og íslenskt rok og rigningu í sínum heimabæ. „Þegar þetta var gengið yfir var hálfgert stríðsástand, fannst manni einhvernveginn. Það var mjög undarleg stemning í bænum. Það voru brotin tré á götum og ljósastaurar höfðu fallið niður,“ bætir hún svo við.
Urðu skemmdirnar einna mestar í miðhluta New Jersey t.a.m. á Jersey Shore, en það er um það bil hálftíma akstur frá Bayonne.
Þá segir Hildur að fjölskyldan eigi nokkuð af ættingjum á svæðinu en að þeir hafi allir sloppið vel.
Hildur segist hafa orðið mjög hrædd í ágúst í fyrra þegar fellibylurinn Irene gekk yfir austurströnd Bandaríkjanna. Þá var eyðileggingin aftur á móti mun minni en menn óttuðust í fyrstu. Hildur telur að margir hafi búist við því sama þegar Sandy nálgaðist austurströndina í október. Margir hafi þar af leiðandi verið illa undirbúnir, þ.e. talið að Sandy myndi líkt og Irene valda mun minni usla. Annað kom á daginn.
Aðspurð segir Hildur að almenningur sé ósáttur við stjórnvöld og þær ákvarðanir sem hafi verið teknar í tengslum við viðbrögð og uppbyggingu í kjölfar fellibylsins. Þetta eigi þó einna helst við þá sem misstu heimili sín eða urðu fyrir miklu tjóni. „Það fólk hefur ekki fengið neina hjálp. Það bara bíður og bíður,“ segir Hildur og bætir við að margir hafist við í athvörfum fyrir heimilislaust fólk.
„Það var bara allt ónýtt. Það gjöreyðilagðist allt. Svo er spurning hvað á að endurbyggja, af því að um leið og það kemur annar svona stormur, þá fer þetta bara aftur,“ segir Hildur varðandi þau svæði sem urðu verst úti í óveðrinu.
Þrátt fyrir að staðan sé enn víða slæm þá segir Hildur að fólk sýni ástandinu almennt mikinn skilning og allir séu að reyna að gera sitt besta. „Mér finnst mjög mikill samhugur hjá fólki,“ segir Hildur og bætir við að margir vinir hennar vinni í sjálfboðavinnu við að veita fólki aðstoð með einum eða öðrum hætti.
„Það eru allir, finnst mér, að leggja hönd á plóg,“ segir Hildur. Hún bætir því við að hún hafi nýverið hitt mann frá Suður-Karólínu sem var kominn til New Jersey gagngert til að aðstoða íbúa á svæðinu. „Fólk er að koma alls staðar að til að hjálpa,“ segir hún að lokum.