Hundruð vilja sjá norðurljósin

Norðurljósin eru vinsæl meðal ferðamanna.
Norðurljósin eru vinsæl meðal ferðamanna. Sigurgeir Sigurðsson

Mikil aðsókn hefur verið í skoðunarferðir um Ísland í haust og vetur. Norðurljósaferðir njóta þar einna mestra vinsælda og þekkjast dæmi þess að allt að eitt þúsund ferðamenn hafi farið á einu kvöldi til þess að leita að norðurljósunum.

Þórir Garðarsson, sölu- og markaðsstjóri Iceland Excursions, segir að það hafi orðið góð fjölgun ferðamanna til Íslands núna í haust og að þeir hafi verið mjög duglegir við að fara í skoðunarferðir um landið.

Þórir segir að Gullfoss og Geysir og Bláa lónið séu meðal vinsælustu áfangastaðanna.  „Síðan eru það norðurljósin sem að eru óhemjuvinsæl, en það er náttúrlega ekki alltaf á vísan að róa í þeim efnum,“ segir Þórir og segir að rútufyrirtækin þurfi að fylgjast grannt með veðurspám og vakta þær.

Það kemur oft fyrir að norðurljósin sjáist ekki í slíkri ferð. Þórir segir að þá sé spilað úr þeirri aðstöðu og viðskiptavinunum boðið að koma aftur næsta kvöld og næsta kvöld, og eru þær ferðir þá fríar. „Það sem við höfum lagt áherslu á er að þetta er leitin að norðurljósunum og það er ýmislegt annað sem hrífur ferðamanninn líka í þessum ferðum, til dæmis geta náttmyrkrið og stjörnurnar vakið áhuga og ánægju hjá ferðamönnunum.“

Þórir bendir á heimasíðu félagsins, en þar er hægt að finna umsagnir frá viðskiptavinum fyrirtækisins, ánægðum sem óánægðum, þar sem hægt er að kynna sér hvernig farþegarnir hafi upplifað ferðina. „Við fáum stundum athugasemdir þarna frá ferðamönnum þar sem þeir lýsa yfir ánægju sinni með ferðina og fararstjórann þrátt fyrir að þeir hafi ekki séð norðurljósin. Svo kemur auðvitað líka fyrir að einhverjir eru óánægðir og athugasemdir þeirra eru líka birtar á síðunni, en það er samt ekki mikið um það miðað við þann mikla fjölda sem við höfum farið með í norðurljósaferðir.“

Vel bókað yfir hátíðarnar

Þórir segir að aðsóknin í norðurljósaferðirnar geti verið mjög misjöfn. „Ef við tökum bara stöðuna hjá fyrirtækjunum sem bjóða upp á þessar ferðir í Reykjavík almennt, þá má segja að þegar einhverjar líkur eru á norðurljósum að þá sé aðsóknin á bilinu frá eitt hundrað og upp í þúsund manns sem fari í norðurljósaferðir á einu kvöldi.“

Hann útskýrir þann mikla fjölda þannig að ef það hafa ekki sést norðurljós eða ekki er hægt að fara í ferðina í einhverja daga að þá safnist upp í næstu ferð. „Þá kæmi mér ekkert á óvart að það næði upp í þúsund manns ef það hefur ekki verið hægt að fara eins og fimm til sex daga í röð.“

„Á tímabili í haust voru mjög erfið skilyrði og skýjafar og úrkoma skipta miklu máli í þessu og við förum eftir ákveðnum spám. Ein ferð hjá okkur getur tekið á bilinu þrjá til fimm klukkutíma en getur alveg farið upp í sex til sjö klukkutíma, ef við erum að fara kannski upp í Norðurárdal, vestur á Mýrar eða austur að Skógum. Við förum sennilega einna lengst af öllum og mætti segja að við sækjum jafnvel í önnur veðursvæði,“ segir Þórir og bætir við að það séu ákveðnir staðir á landinu sem þeir þekki þar sem reynslan hefur sýnt að það myndist göt í skýjunum sem gefi kost á að sjá norðurljósin.

Þórir segir að síðasta vikan fyrir jól sé rólegasti tíminn, en að svo sé von á mörgum  ferðamönnum yfir hátíðarnar. Það sé mjög vel bókað á flestum hótelum á höfuðborgarsvæðinu og um mestallt landið, og hjálpar þar til að jólin og áramótin lenda í ár á virkum dögum þannig að fleiri frídagar eru í boði. Hann bætir við að allt haldist í hendur í ferðaþjónustunni. „Það hefur sýnt sig að til dæmis Reykjavíkurborg er með mjög skemmtilegt ferðaþjónustuátak í gangi núna og allt leggst þetta saman.“

„Orðsporið skiptir öllu máli í ferðaþjónustunni, ef menn standa sig ekki fyllast bloggheimar og ef menn standa sig vel fyllast þeir líka. Slæma orðið gengur samt hraðar en það góða, en menn hafa staðið sig vel hérna á Íslandi. Langflestir ferðaþjónustuaðilar hérna þjónusta ferðamenn mjög vel og það skilar okkur fleiri ferðamönnum á næsta ári og góðu orðspori til framtíðar,“ segir Þórir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert