Samningar hafa náðst milli D-lista og og L-lista um nýtt meirihlutasamstarf í bæjarstjórn Garðs eftir brotthvarf Kolfinnu S. Magnúsdóttur úr bæjarstjórn. Að sögn Gísla Heiðarssonar, fulltrúa D-lista í bæjarstjórn, var ákvörðun um samstarf tekin í dag og nýr meirihluti verður formlega myndaður á morgun á fundi klukkan 18.30.
Gísli gefur ekki upp hver mun leiða nýja meirihlutann en sagði þó að það myndi „líklegast ekki koma á óvart“.
Kolfinna óskaði eftir leyfi frá störfum í bæjarstjórn á föstudaginn. Uppsögnin hafði í för með sér að nýr meirihluti sem stofnaður var í vor, eftir að Kolfinna hætti stuðningi við meirihluta D-listans, féll. D-listinn fékk þannig aftur hreinan meirihluta í Garði þar sem varamaður Kolfinnu er D-listamaður.
Kæra sig ekki um rótleysi og endalaus skipti
„D-listinn mun hafa 4 manna meirihluta og L-listinn þrjá menn. Hætti Kolfinna, eins og hún hefur gefið út, verðum við hins vegar með 5 manna meirihluta þar sem varamaður hennar er af D-lista,“ segir Gísli, en varamaður Kolfinnu er Einar Tryggvason.
Aðspurður hvort örar breytingar á bæjarstjórn Garðs hafi áhrif á stjórnsýsluna segir hann svo vera. „Þetta kemur ekki síst niður á íbúunum, þeir kæra sig ekki um rótleysi og endalaus skipti. Þreifingarnar með L-listann hafa átt sér stað síðustu 2 vikur og tókst loks að ná niðurstöðu í það mál í dag. Menn eru sáttir við að fara af stað með nýjan öflugan meirihluta.“
Inntur eftir hvort einhverjar grundvallarbreytingar verði á stefnu bæjarstjórnarinnar við breytingarnar, segir Gísli svo ekki vera. „Búið er að setja upp stefnuskrár beggja lista og við munum einfaldlega fylgja þeim eftir.“
Tengd frétt: Meirihlutinn í Garði fallinn.