Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar fær minni fjölmiðlaumfjöllun en önnur ný framboð. Stefnumál flokksins hafa fengið litla umfjöllun og þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir við RÚV hafa fulltrúar flokksins ekki fengið tækifæri til að koma stefnumálum flokksins á framfæri. Þetta segja forystumenn Samstöðu og segja þetta meðal skýringa á minnkandi fylgi flokksins. Vegið sé að lýðræðinu með þessum hætti.
Stjórn og framkvæmdaráð Samstöðu sendi frá sér opið bréf í morgun. Þar segir að í samfélagi sem vilji kenna sig við upplýsingu og lýðræði ætti ekki að vera erfiðleikum bundið að stofna stjórnmálaflokk og koma honum á framfæri við kjósendur. „Ekki síst þegar um er að ræða samfélag þar sem ríkið rekur bæði útvarps- og sjónvarpsmiðil af skattfé almennings,“ segir í bréfinu.
„Eins og kunnugt er stofnaði Lilja Mósesdóttir stjórnmálaflokkinn Samstöðu flokk lýðræðis og velferðar fyrr á þessu ári ásamt hópi einstaklinga sem höfðu unnið að því með henni að setja flokknum grundvallargildi og stefnuskrá. Frá upphafi hafa fjölmiðlar sýnt þessu nýja framboði daufar undirtektir og stefnumál hans því lítið komið fyrir sjónir eða eyru almennings. Skylt er þó að taka fram að nokkur landsmálablaðanna hafa staðið sig vel í að koma mismunandi sjónarmiðum á framfæri við lesendur sínar og birt greinar frá flokksfélögum Samstöðu.“
„Nú þegar líður að næstu alþingiskosningum hafa ný framboð fengið aukið rými í öllum stærri fjölmiðlum landsins með viðtölum við forystuaðila og aðra fulltrúa þessara flokka. Öll nema Samstaða. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir við bæði dagskrárgerðarmenn og þáttastjórnendur einkum hjá RÚV hefur fulltrúum flokksins ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum og stefnu flokksins á framfæri í þeim málaflokkum sem hafa verið til umræðu hverju sinni. Það að fulltrúar Samstöðu hafa ekki fengið tækifæri til að koma stefnumálum flokksins á framfæri í útbreiddasta fjölmiðli landsins er mjög líklega ein þeirra skýringa að fylgi flokksins hefur fallið mjög hratt. “
Fleira er þó talið til skýringa og í bréfinu segir að Capacent beri einnig ábyrgð. „Staðfestar heimildir hafa nefnilega komið fram um það að nafn Samstöðu var ekki með á lista yfir aðra stjórnmálaflokka í viðhorfskönnun Capacent sem gerð var nú í nóvember en könnuninni var ætlað að mæla viðhorf fólks til stjórn- og þjóðmála,“ segir í bréfinu.
Stjórn Samstöðu hvetur fréttamenn RÚV til að taka upp fréttaflutning „sem styrkir gagnrýna og lýðræðislega umræðu og framfylgja þannig lögum um ríkisútvarpið“. Þá er Capacent bent á að stofnanir og fyrirtæki sem gefi sig út fyrir það að vera hlutlausir aðilar við framkvæmd skoðanakannana verði að viðhafa vinnubrögð „sem viðhalda trúverðugleika með gangsæi þannig að hægt sé að staðreyna niðurstöður sem birtar eru m.a. varðandi fylgi stjórnmálaflokka.“