„Grundvallaratriðið í þessu er að handhafar aflaheimilda eiga stjórnarskrárvarinn rétt til aflaheimilda sinna. Það er óumdeilt enda kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að ekki sé hróflað við þeim rétti sem til staðar er. Það breytir því ekki að ákvæðið sem slíkt er mjög gagnrýnisvert.“
Þetta segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, um 34. grein stjórnlagafrumvarpsins um sameiginlega eign þjóðarinnar á náttúruauðlindum.
Lögmannsstofan Lex vann álitsgerð fyrir LÍÚ vegna stjórnlagafrumvarpsins og er ein niðurstaðan sú að samþykkt frumvarpsins myndi skapa algera réttaróvissu um stöðu réttinda hjá handhöfum aflaheimilda.
Í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að það sé mat Arnórs Snæbjörnssonar, lögfræðings hjá atvinnuráðuneytinu, að tillaga stjórnlagaráðs um að fella brott 2. málsgrein 72. greinar stjórnarskrárinnar sé rökstudd með skýringum sem séu „reistar á hæpnum eða villandi forsendum“.