Matthías Máni Erlingsson, refsifanginn sem strauk af fangelsinu á Litla-Hrauni í gær, er ófundinn samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi. „Við höfum fengið ýmsar vísbendingar um hvar hann gæti verið að finna, sem ekki hafa síðan reynst á rökum reistar,“ segir talsmaður lögreglunnar á Selfossi.
Matthías er fæddur 1988. Hann er 171 sm á hæð, um 70 kg og grannvaxinn. Hann var íklæddur grárri hettupeysu, með svarta prjónahúfu á höfði og í dökkum buxum. Matthías var að afplána refsingu fyrir gróft ofbeldisbrot, en hann réðist á fyrrverandi stjúpmóður sína og barði hana meðal annars með kertastjaka.
Hann er talinn hættulegur og er konan undir vernd lögreglu. Þá var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð út vegna stroks Matthíasar Mána.
Í tilkynningu, sem lögregla sendi frá sér í gær, segir að vísbendingar séu um að Matthías Máni hafi fengið far á Selfoss um kl. 13:30 í gær, en ekki er vitað hvernig hann komst út fyrir girðingu fangelsisins. Lögreglan óskar eftir öllum upplýsingum sem tengst geta stroki hans. Sími lögreglu er 480 1010.
Fréttir mbl.is um málið:
Ekki vitað hvernig Matthías slapp
Strokufanginn er ofbeldismaður