„Þetta er einfaldlega í fullu samræmi við málflutning minn til þessa og grunnstefnu míns flokks um að hafna inngöngu í Evrópusambandið. Stuðningur minn við þessa tillögu þarf því ekki að koma neinum á óvart. Það hefði sennilega fyrst verið frétt ef ég hefði ekki stutt hana.“
Þetta segir Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is en hann lagði í morgun fram þingsályktunartillögu í utanríkismálanefnd Alþingis ásamt fulltrúum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í nefndinni þess efnis að viðræður við Evrópusambandið um inngöngu Íslands yrðu settar til hliðar og ekki teknar upp aftur nema það yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Jón hefur áður lagt fram hliðstæða þingsályktunartillögu ásamt Atla Gíslasyni alþingismanni, en hann hefur beitt sér mjög gegn umsókninni um inngöngu í Evrópusambandið frá því að hún var send til sambandsins sumarið 2009. Ekki síst í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hann gegndi uns hann var settur út úr ríkisstjórn fyrir tæpu ári, að hans sögn vegna afstöðu sinnar til umsóknarinnar.
Jón var að sama skapi einn þeirra þingmanna VG sem greiddu atkvæði gegn umsókninni á Alþingi 2009 en hún var samþykkt með atkvæðum þingmanna Samfylkingarinnar, meirihluta þingmanna VG og fjögurra þingmanna úr stjórnarandstöðunni.