Þurfum sömu gæslu og þing annarra landa

Úr sal Alþingis.
Úr sal Alþingis. Morgunblaðið/Ómar

„Menn eru auðvitað skeknir en það sýndu allir stillingu. Það var einstakri árvekni og hæfni lögreglumanns að þakka að ekki fór verr,“ segir Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis. Maður sem var gestur á þingpöllum lokaði sig inni á salerni Alþingis og skaðaði sjálfan sig skömmu fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Hann var fluttur á sjúkrahús, en gat gengið út með stuðningi.

Að sögn Helga hafði lögreglumaður á vakt haft auga með manni, sem var gestur á þingpöllum. Hann fór að undrast um manninn, eftir að hann hafði verið lengi inni á salerni Alþingis. Lögreglumaðurinn fór að athuga málið og sá að ekki var allt með felldu. 

„Þá fóru þingverðir inn og sáu strax að maðurinn hafði skorið sig til blóðs. Hann var með meðvitund og gat gengið út með stuðningi þingvarða og lögreglu,“ segir Helgi.

Hefur eitthvað þessu líkt gerst áður í Alþingishúsinu? „Já, það hefur gerst. Reyndar ekki á salerni hússins, en á þingpöllum. Yfirleitt á í hlut fólk sem á um sárt að binda og auðvitað erum við samúðarfull í garð þeirra.“

Meiri öryggisgæslu er þörf

Spurður að því hvort hægt sé að koma í veg fyrir atvik af þessu tagi, segir Helgi að þetta atvik og ýmis önnur sýni að sömu öryggisgæslu sé þörf á Alþingi Íslendinga og í þinghúsum annarra landa. „Það er verið að vinna í breytingum á þessu fyrirkomulagi, við höfum fengið auknar fjárveitingar. En það þarf meira til, bæði mannafla og tækjabúnað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert