Hæstiréttur lækkaði í dag bætur til handa 23 ára karlmanni sem vegna alvarlegs slyss sem hann varð fyrir í svonefndum gangaslag í Menntaskólanum í Reykjavík 21. apríl 2009. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi honum tæpar níu milljónir króna í bætur en Hæstiréttur lækkaði þær í 4,2 milljónir króna.
Í dómi Hæstaréttar segir að það hafi verið ófullnægjandi háttsemi af hálfu menntaskólans að gera ekki nægar ráðstafanir við slaginn til að koma í veg fyrir augljósa hættu á að nemendur slösuðust. Var það metið stjórnendum skólans til gáleysis sem íslenska ríkið bæri skaðabótaábyrgð á.
Hins vegar vísaði rétturinn til þess að maðurinn hefði sjálfur ráðið þátttöku sinni í slagnum og verið fulltíða maður er atvik gerðust. Samkvæmt því var hann látinn bera helming tjónsins sjálfur. Var íslenska ríkinu gert að greiða honum skaðabætur að helmingi vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáninga, varanlegs miska og varanlegrar örorku, auk hluta umkrafinna kostnaðarliða vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns.
Í greinargerð vegna slyssins kom fram að hefðin væri sú að 6. bekkingar kæmu saman á annarri hæð Gamla skóla. Á jarðhæð væru yngri nemar að búast til varnar milli stiga og bjöllu. Oftast væru plön þannig að 6. bekkingar þytu niður, þungavigtarmennirnir fremstir og reyndu að ryðjast að bjöllunni. Léttari piltar kæmu á eftir og hentu sér ofan á hauginn þar sem félagar þeirra handlönguðu þá ofan á kösinni í átt að bjöllu með uppréttum höndum. Yngri bekkingar reyndu að varna því með því að draga 6. bekkinga út um aðaldyr að vestanverðu eða bakdyr að austanverðu eins hratt og kostur væri.
Þegar umrætt slys varð hafi 6. bekkingar komið öskrandi niður stigann og flestir reynt að kasta sér ofan á kösina. Enginn hafi komist að bjöllunni og 6. bekkingum kippt niður á gólf. Í umrætt sinn hafi 6. bekkingar hagað sér óvenjulega að því leyti að flestir hafi reynt að kasta sér ofan á þvöguna.
Á myndbandi mátti sjá nemandann sem slasaðist fara neðst í þvöguna. Hann virtist gera sig líklegan til að komast út í kösina en á sama tíma stukku nokkrir stæðilegir nemendur úr 6. bekk af sama stað út yfir kösina og brutust um og spörkuðu frá sér. Áhlaupið hélt áfram með sama móti og stukku nemendur úr 6. bekk ítrekað út yfir kösina.
Nemandinn hlaut þungt högg á höfuðið, sáran verk í háls og bak og hellu fyrir eyrun. Komst hann út úr þvögunni af eigin rammleik og fór að útidyrunum til að fá meira loft. Hefur hann lýst líðan sinni þannig að honum hafi fundist eins og þyngsli væru í hálsinum og um stund þótt erfitt að anda.
Hann var fluttur á slysadeild og eftir rannsóknir á spítalanum kom í ljós að hann var tvíbrotinn á fyrsta hálslið og liðband rifið. Hann var settur í stífan hálskraga sem hann þurfti að nota í 13 vikur og var hann í 5 vikur til viðbótar í mýkri kraga, samtals í rúma fjóra mánuði. Nemandinn var byrjaður í stúdentsprófunum en fékk próf sín metin, þ.e. hann lauk áföngunum án þess að taka próf. Þá var hann óvinnufær allt sumarið