Hæstiréttur hefur dæmt Borgarahreyfinguna til að greiða Guðmundi Andra Skúlasyni 72.925 krónur í ógreidd laun. Guðmundur fór fram á hærri upphæð en Hæstiréttur taldi að Borgarahreyfingin ætti gagnkröfu á hendur honum sem væri tæk til skuldajafnaðar.
Guðmundur Andri var ráðinn verkefnastjóri hjá Borgarahreyfingunni í ársbyrjun 2011. Honum var sagt upp störfum í júlí sama ár. Guðmundur krafðist í kjölfarið launa út umsaminn ráðningartíma auk orlofs og annarra nánar tiltekinna launaliða.
Borgarahreyfingin krafðist aðallaga sýknu af kröfum Guðmundar en til vara lækkunar þeirra, með vísan til þess að hún ætti gagnkröfu til skuldajafnaðar á hendur Guðmundi, sem hefði brotið gegn trúnaðarskyldum sínum með óheimilli meðferð fjármuna Borgarahreyfingarinnar.
Fyrir héraðsdómi benti Borgarahreyfingin á að Guðmundur Andri hefði á sama tíma verið starfsmaður Samtaka lánþega. Borgarahreyfingin greiddi í júní 2011 Samtökum lánþega vegna húsaleigu (200.000 krónur), kostnaðar við auglýsingu NEI Icesave (389.050 krónur) og kostnaðar við ferð til Brussel, tæplega eina milljón. Ekki lágu frammi gögn um að þessi greiðsla hefði verið samþykkt í stjórn Borgarahreyfingarinnar
Hæstiréttur taldi að Guðmundur ætti kröfu á hendur Borgarahreyfingunni vegna launa út umsaminn ráðningartíma auk orlofs- og desemberuppbóta, að frádreginni innborgun Borgarahreyfingarinnar, en öðrum kröfuliðum hafnað.
Á hinn bóginn var fallist á með Borgarahreyfingunni að Guðmundi hefði verið óheimilt að greiða nánar tiltekna fjárhæð af reikningi hreyfingarinnar. Samkvæmt því ætti Borgarahreyfingin gagnkröfu á hendur Guðmundi sem væri tæk til skuldajafnaðar.