„Ég lýsti yfir furðu og vanþóknun vegna vinnubragða meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í skipulagsmálum þessara hverfa,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en umræða fór fram í borgarstjórn Reykjavíkur í gær að frumkvæði hans um skipulagsmál í Grafarholti og Úlfarsárdal. Meðal annars með tilliti til aðstöðusköpunar fyrir íþrótta- og æskulýðsstarfsemi.
Kjartan bendir á að eðlilegt hefði verið að ræða slíkar hugmyndir með formlegum hætti í fagráðum borgarinnar og eiga ennfremur náið samráð við íbúasamtök, íþróttafélag hverfisins Fram, og hverfisráð áður en slíkur tillögur væru mótaðar og kynntar. Það hafi meirihlutinn í borgarstjórn hins vegar ekki gert en þess í stað kosið að tilkynna um áform sína um gerbreyttar forsendur í skipulagsmálum á svæðinu í fjölmiðlum.
„Slík vinnubrögð eru óviðunandi en koma ekki á óvart í ljósi þess að sama meirihluta virðist fyrirmunað að eiga eðlilegt samráð um mikilvæg mál við borgarbúa, samanber nýafstaðnar breytingar í skóla- og frístundamálum,“ segir Kjartan. Ljóst væri að mikil óánægja væri með áform meirihlutans um að gera aðeins ráð fyrir 2-3 þúsund manna byggð í Úlfarsárdal sem hafa muni mikil áhrif á möguleika á uppbyggingu og rekstur íþrótta- æskulýðs- og tómstundaþjónustu á svæðinu.
„Ég óskaði eindregið eftir því að meirihlutinn léti af einhliða yfirlýsingum sínum um mikilvæg málefni Grafarholts og Úlfarsárdals en ynni þess í stað með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum í hverfunum með það að markmiði að finna viðunandi lausn varðandi skipulagsmál og uppbyggingu íþrótta- og skólamannvirkja,“ segir hann ennfremur.