Íslenskir friðarsinnar hafa efnt til friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu í rúmlega þrjá áratugi. Árlega tekur fjöldi fólks sér hlé frá tiltektum og innkaupum til að leggja sitt af mörkum og styðja kröfuna um frið og afvopnun í heiminum. Undanfarin ár hafa slíkar göngur einnig verið á Akureyri og á Ísafirði og verður svo einnig nú.
Að venju stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir göngunni í Reykjavík þann 23.desember. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega, segir í tilkynningu.
Friðarhreyfingarnar selja kerti fyrir göngufólk á Hlemmi. Í lok göngu verður fundur við hótel Vík (við Ingólfstorg) þar sem Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík flytur ávarp en fundarstjóri er Drífa Snædal.
Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.
Samstarfshópurinn minnir á að málstaður og rök friðarsinna skipta jafn miklu máli nú og fyrir þrjátíu árum. Stöðugt berast fregnir af ofbeldisverkum þjóða á milli og innan samfélaga. Óheyrilegum fjárhæðum er enn sóað í vígvæðingu og ekkert lát virðist á hernaðarátökum í heiminum.
Samstarfshópur friðarhreyfinga:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Friðar- og mannréttindanefnd Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar Menningar og friðarsamtökin MFÍK Samhljómur menningarheima Samtök hernaðarandstæðinga SGI á Íslandi mannúðar og friðarsamtök búddista