„Meginástæða þess að það er engin skírskotun [í makríldeiluna] er sú að þetta mál snýst fyrst og fremst um sjálfbæra stjórnun makrílstofnsins í Norður-Atlantshafinu á milli viðkomandi strandríkja. Sem slíkt er það mál ekki hluti af aðildarviðræðunum. En það er ljóst að árangur á þessum viðræðufundum á milli strandríkjanna mun bæta andrúmsloftið í viðræðunum.“
Þetta sagði Štefan Füle, stækkunarmálastjóri Evrópusambandsins, á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins í gær vegna umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið, en vakið hefur nokkra athygli að ekki hafi verið skírskotað í makríldeiluna í nýlegum yfirlýsingum stofnana Evrópusambandsins um umsóknina.
Forystumenn Evrópusambandsins hafa til þessa lagt áherslu á að um aðskilin mál sé að ræða. Hins vegar lýsti sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, Maria Damanaki, því yfir í heimsókn til Íslands í sumar að sjávarútvegskafli viðræðnanna um inngöngu landsins strandaði á makríldeilunni þar sem skiptar skoðanir væru í ráðherraráði sambandsins um það hvort opna ætti kaflann og þá einkum í ljósi makríldeilunnar.
Þá sagði sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Coveney, fyrr á þessu ári að makríldeilan kynni að setja viðræður um sjávarútvegskaflann í uppnám enda væri útlokað að hefja raunhæfar viðræður um hann nema deilan yrði fyrst leyst. Hann vildi þó ekki ganga svo langt að segja að írsk stjórnvöld myndi koma í veg fyrir viðræðurnar en málið gerði hins vegar Evrópusambandinu erfitt fyrir að opna kaflann.