Í dag gaf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) út ráðgefandi álit þar sem fram kemur að Ísland verður að setja löggjöf sem innleiðir að fullu EES-löggjöf varðandi endurskipulagningu og slit vátryggingarfélaga.
Ísland hefur ekki innleitt á fullnægjandi hátt lagagreinar sem kveða á um að þekktir lánveitendur skulu vera upplýstir um það þegar slitameðferð hefst. Þess ber að geta að EFTA-dómstóllinn hefur nýlega úrskurðað að íslensk löggjöf varðandi þekkta lánveitendur, með sambærilegu orðalagi og löggjöf varðandi vátryggingarfélög, væri ekki í samræmi við EES-löggjöf.
Þar að auki hefur ESA einnig komist að þeirri niðurstöðu að önnur atriði hafi ekki verið réttilega innleidd á Íslandi.
Það er mikilvægt fyrir virkni innri markaðarins og fyrir vernd lánveitenda að samræmdar reglur séu gefnar út af Evrópusambandinu fyrir slitameðferð vátryggingafélaga, segir í fréttatilkynningu.
Tilskipun um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga er ætlað að setja slíkar reglur.
Íslensk yfirvöld hafa viðurkennt að tilskipunin hafi ekki verið innleidd á fullnægjandi hátt en hafa enn sem komið er ekki fundið skilvirka lausn á málinu.
Rökstudda álitið telst lokaaðvörun til Íslands. Ísland fær í kjölfarið tvo mánuði til að gera viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við álitinu, ella getur ESA ákveðið að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn.