Margar en misvel heppnaðar flóttatilraunir hafa verið gerðar úr fangelsum hér á landi. Flest eru þessi atvik spaugileg umfram allt, en slæm staða fangelsismála er orðið alvarlegra mál eftir því sem hlutfall þeirra fanga hækkar sem sitja inni fyrir alvarleg ofbeldisbrot, líkt og sá sem nú er á flótta.
Finnast fljótt eða banka upp á sjálfir
Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segir að fangaflótti geti í raun ekki talist vandamál á Íslandi. „Í dag er það algjör undantekning að menn strjúki úr fangelsi. Ekki vegna þess að það sé ekki hægt, við erum með tvö opin fangelsi þar sem eru engar hindranir, en þaðan hefur enginn strokið í áratugi. Ég hef stundum sagt að það sé meiri frétt af hverju það strjúka svona fáir, því ég gæti farið yfir þessa girðingu á Litla-Hrauni.“
Erlendur segir líklegt að flestir fangar geri sér grein fyrir að þeir komist ekki langt. Algengast sé að menn geri tilraunir til að stinga af þegar þeir eru fluttir út fyrir múrana, til læknis eða fyrir dómara. „Ég veit ekki um neinn sem hefur strokið til þess að gera neitt alvarlegt af sér, enda held ég að fangar viti það alveg að það er ekkert sérlega gáfulegt að hlaupa hér í burtu. Svo það er undantekning að það sé strokið og þegar það gerist finnast menn oftast fljótt eða jafnvel banka upp á sjálfir.“
Erlendur segir þó að auðvitað séu strok tekin alvarlega enda sé aldrei hægt að vita fyrirfram hvað menn ætlist fyrir.
Svaraði í símann þegar löggan hringdi
Þekktastur strokumanna á Litla-Hrauni frá fyrri tíð er líklega Jóhann Víglundsson sem flýði margsinnis úr haldi lögreglu. Sumarið 1958 fór Jóhann, ásamt tveimur föngum öðrum, með fangaverði í Þjórsárdal þegar fé var rekið á fjall. Þar stungu fangarnir af og héldu til fjalla. Næstu daga var gerð að þeim mikil leit, á sama tíma og útlagarnir héldu sig í Hrunamannahreppi. Fóru, skv. frásögnum Hrunamanna, að bænum Hrafnkelsstöðum og stálu þar sviðakjömmum og bakkelsi á öðrum bæ. Þaðan barst leikurinn á stolnum bíl til Reykjavíkur þar sem lögregla náði mönnunum að lokum eftir „æðisgenginn eltingaleik,“ eins og segir í frétt Morgunblaðsins í júlí 1958.
Á þessum tíma var Litla-Hraun skilgreint sem vinnuhæli og var það ekki fyrr en 1988 sem það var endurskilgreint sem gæsluvarðhalds- og afplánunarfangelsi. Raunar var það enn nefnt vinnuhæli í frétt Morgunblaðsins þegar 5 fangar struku þaðan að kvöldi 3. apríl 1990.
Flóttatilraunin var kostuleg. Fangarnir fimm héldu hópinn, stálu Lödu á Selfossi og óku til Reykjavíkur. Þar sá lögreglan þá og úr varð nokkurs konar bílaeltingaleikur, þar til fangarnir hlupu út úr bílnum á Breiðholtsbraut og inn í Elliðaárdal. Þar handtók lögreglan 4 þeirra á hlaupum um nóttina en sá fimmti komst undan. Hann fór þó ekki langt. Lögreglan hringdi á heimili hans í Breiðholti að morgni 4. apríl. Fanginn svaraði þar í síma, og samþykkti að gefa sig fram.
Stálu bæði bát og bíl
Næsti flótti af Litla-Hrauni varð þremur árum síðar, í júlí 1993. Þá struku þrír fangar með því að saga í sundur rim fyrir klefaglugga eins þeirra með járnsög sem þeir tóku af smíðaverkstæði fangelsisins. Þeir voru lausir í 10 daga en voru handteknir 8. ágúst í Vestmannaeyjum, þaðan sem þeir ætluðu sér að fljúga til Færeyja. „Við vitum að aðstaðan á Litla-Hrauni er ekki eins og hún þarf að vera og þar eru uppi áætlanir um úrbætur,“ sagði þáverandi dómsmálaráðherra, Þorsteinn Pálsson, í tilefni flóttans.
Tveimur árum síðar flýðu tveir fangar af Litla-Hrauni með nokkuð skrautlegum hætti. Þeim tókst að komast út um neyðarlúgu á fangelsinu, sem átti ekki að vera unnt nema með aðstoð fangavarða ef til eldsvoða kæmi. Fangarnir stálu bát á Stokkseyri og sigldu á honum til Þorlákshafnar, þar sem þeir stálu bíl og keyrðu til Reykjavíkur. Þeir voru handteknir í heimahúsi í Breiðholti eftir sólarhring á flótta. Læsingar á neyðarlúgum voru lagfærðar í kjölfarið.
„Takk fyrir okkur, strokufangar á Litla-Hrauni“
Frá aldamótum hefur a.m.k. 9 föngum á Litla-Hrauni tekist að strjúka, að Matthíasi Mána Erlingssyni sem nú er leitað meðtöldum. Árið 2004 strauk fangi með því að klifra yfir öryggisgirðinguna. Hann komst til Reykjavíkur en gaf sig fram við lögreglu þar daginn eftir.
Árið 2006 struku tveir fangar með þriggja mánaða millibili, en báðir sáu sér leik á borði þegar þeir voru fluttir tímabundið til Reykjavíkur. Annar fór til læknis í fylgd þriggja gæslumanna, en fékk að fara á klósettið og komst þar út um glugga. Hann fannst 4 dögum síðar í heimahúsi. Hinn fanginn strauk frá gæslumönnum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann gaf sig fram við Litla-Hraun tveimur dögum síðar og reyndist við röntgenmyndatöku vera með fíkniefni í endaþarmi. Er þar líklega komið tilefni flóttans.
Ári síðar struku tveir fangar saman af Litla-Hrauni þegar þeir fóru á AA-fund en skiluðu sér aldrei til baka. Þeir voru handteknir eftir sólarhring en fóru mikinn á þeim stutta tíma sem þeir gátu um frjálst höfuð strokið. Fangarnir brutust inn í bæði hesthús, heimahús og bíl á Eyrarbakka þar sem þeir stálu m.a. kreditkorti, stígvélum, kraftgalla, bleikum hönskum og stóru skrautsverði. Á stofuvegginn skrifuðu þeir: „Takk fyrir okkur, strokufangar á Litla-Hrauni.“
Skemmtanaþyrstir klifruðu yfir girðinguna
Næsta flóttatilraun frá Litla-Hrauni var gerð í árslok 2009 þegar tveir fangar klifruðu yfir girðinguna á útivistartíma, að kvöldi 30. desember. Annar þeirra var handtekinn strax hinum megin við girðinguna, en hinn tók sprettinn og hvarf út í náttmyrkrið. Hann fékk þó ekki að njóta frelsisins nema í rúmar 2 klukkustundir, því síðar um kvöldið var hann handtekinn í heimahúsi á Eyrarbakka. Í frétt mbl.is um málið segir að ekki sé vitað hvað þeim gekk til með þessari misheppnuðu flóttatilraun, „en leiða má líkum að því að þeir hafi verið skemmtanaþyrstir fyrir gamlárskvöld“.
Árið 2010 sveikst fangi á Litla-Hrauni um að skila sér aftur í hús eftir dagsleyfi. Hann lét sig hverfa á laugardegi og gaf sig ekki fram aftur fyrr en á fimmtudegi. Sá hafði verið dæmdur fyrir fíkniefnasmygl í Pólstjörnumálinu svo kallaða. Var hann settur í einangrun í refsingarskyni og sviptur frekara færi á dagsleyfum.
Einn braust út til að taka niður fána - annar reyndi að brjótast inn
Strok Matthíasar Mána er annað skiptið á þessu ári sem fangi klifrar yfir girðingu Litla-Hrauns. Þann 1. ágúst 2012 tókst nefnilega fanga í útivist að klifra yfir, en sá fór þó ekki langt heldur hélt beina leið að heimilum tveggja fangavarða. Þar tók hann niður tvo fána, íslenska þjóðfánann og þann danska, og var gripinn við þá iðju. Jón Sigurðsson, deildarstjóri á Litla-Hrauni, sagði þá í samtali við mbl.is að sami fangi hefði áður klifrað yfir, en hann væri í mjög góðu líkamlegu formi.
Loks má geta þess að í mars 2009 kom upp óvenjulegt atvik á Litla-Hrauni þegar maður nokkur reyndi að brjóta sér leið inn í fangelsið. Fangaverðir komu auga á hann í öryggismyndavél þar sem hann bisaði við girðinguna með vírklippur á lofti. Maðurinn var mjög ölvaður og ekki alveg með á hreinu hvað honum gekk til. Síðar játaði hann verknaðinn fyrir dómi en sagðist þó ekkert muna eftir kvöldinu.
Auglýsti afmælisveislu á Myspace
Flóttatilraunir hafa líka verið gerðar úr öðrum fangelsum. Árið 1991 struku t.d. 6 fangar úr Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg með því að klifra upp í þakglugga og sveigja þar rimla. Forstöðumaður fangelsisins benti þá á að húsið væri gamalt og úr sér gengið og á það ekki síður við í dag, 21 ári síðar, þótt enn sé það í notkun.
Eitt frægasta strok síðustu ára hlýtur þó að teljast þegar Annþór Karlsson flýði úr fangageymslu lögreglu við Hverfisgötu, 15. febrúar 2008. Annþór hafði verið handtekinn tveimur vikum áður, á afmælisdaginn sinn, í tengslum við fíkniefnamál. Honum tókst að brjótast inn í læsta geymslu þar sem hann komst yfir kaðalspotta. Braut hann síðan glugga á annarri hæð og lét sig síga niður 6-7 metra.
Eitt af fyrstu verkum Annþórs sem frjáls manns var að skrá sig inn á Myspace, sem þá hafði enn ekki tapað baráttunni við Facebook alveg sem samfélagsmiðill. Annþór sagðist á netinu hafa afnot af ónefndri íbúð og bauð til afmælisveislu. Lögreglan komst fljótt á sporið og handtók hann sama kvöld, í húsi í Mosfellsbæ þar sem hann faldi sig í fataskáp.
Fleiri hættulegir fangar
Hægt er að hafa gaman af mislukkuðum flóttatilraunum fanga gegnum tíðina, sem margir voru dæmdir fyrir umferðarlagabrot, skjalafals eða smávægileg fíkniefnabrot. Samfélög fanga hafa hinsvegar farið harðnandi á undanförnum árum.
Hlutfall fanga sem sitja inni fyrir alvarleg ofbeldisbrot, kynferðisbrot og stórfelld fíkniefnabrot hækkar og sem dæmi má nefna að hlutfall þeirra sem afplána þrjú ár eða fleiri tvöfaldaðist á tímabilinu 2004-2010. Þess eru dæmi að glæpagengi séu dæmd í heilu lagi og sitji af sér saman.
Matthías Máni, sem nú hefur verið leitað í tvo daga, situr inni fyrir tilraun til manndráps og er af lögreglu talinn hættulegur á meðan ekki er vitað hvað honum gengur til. „Þess vegna erum við að setja aukið fé í öryggismál, og þess vegna erum við að byggja nýtt fangelsi,“ segir Erlendur.