Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru af ýmsu tagi í gærkvöldi og í nótt eins og svo oft áður. Lögregla hafði meðal annars afskipti af hópi fólks sem grunað er um innbrot, veisluhaldi ungmenna og ökumanni sem hafði reykt kannabis.
Á áttunda tímanum í gærkvöldi stöðvaði lögregla bifreið, sem var á leið til borgarinnar, á Vesturlandsvegi við Þingvallaveg. Í bifreiðinni voru fjórir erlendir karlmenn um tvítugt, sem grunaðir eru um þjófnaði og innbrot bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þeir voru allir handteknir og er mál þeirra í rannsókn.
Skömmu eftir klukkan níu stöðvaði lögreglu bifreið á Bústaðavegi. Ökumaður hennar hafði nýlega reykt kannabis og var með nokkur grömm í fórum sínum. Hann var færður til blóðsýnistöku eins og jafnan er gert þegar fólk er talið hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.
Klukkan rúmlega eitt í nótt var kvartað undan háværri tónlist á Vitastíg. Þar hafði hópur ungmenna komið saman eftir menntaskólaball. Ungmennin lækkuðu tónlistina og linnti þá kvörtunum.