„Fjölmörg verkefni og sum erfið bíða þeirra 1.600 sjálfstæðismanna sem koma saman á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hefst 21. febrúar næstkomandi. Hvernig fundarmönnum tekst til við lausn þessara verkefna mun ráða miklu um árangur Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum til Alþingis“ segir Óli Björn Kárason varaþingmaður í grein í Morgunblaðinu í dag. Það er mikið í húfi, ekki aðeins fyrir flokksmenn heldur miklu fremur fyrir þjóðina alla.
Í grein sinni segir varaþingmaðurinn m.a.: „En það er ekki nægjanlegt að marka stefnuna á landsfundi. Forysta Sjálfstæðisflokksins verður að koma fram af festu, tala skýrt og af sannfæringu – sýna djörfung í málflutningi. Hið sama á við um frambjóðendur flokksins um allt land. Aðeins þannig munu kjósendur skynja að sjálfstæðismenn séu málafylgjumenn, sem segja það sem þeir meina og gera það sem þeir segja.“
Lokaorð Óla Björns: „Til framtíðar á Sjálfstæðisflokkurinn að virkja enn betur þann kraft sem býr í sjálfstæðismönnum um allt land. Það gerir hann best með því að gefa þeim öllum kost á því að kjósa beint formann flokksins. Að loknu öflugu málefnastarfi ættu landsfundarfulltrúar því að beita sér fyrir að reglum um formannskjör verði breytt.“