Sjö þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að ríkisstjórninni verði falið að koma á „samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun,“ eins og segir í tillögunni.
Fram kemur að markmiðið með átakinu væri að efla samkeppnishæfni svæðisins „og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts svo sem fyrir gagnaver.“
Vakin er athygli í greinargerð á fólksfækkun á Norðurlandi vestra undanfarin ár sem eigi sér vart hliðstæðu í seinni tíð. Mikil byggðaröskun hafi orðið vegna fækkunar starfa í hefðbundnum atvinnugreinum, eins og sjávarútvegi og landbúnaði.
„Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar hefur íbúum á svæðinu fækkað um tæplega 1.000 milli áranna 1997 og 2010. Til samanburðar voru íbúar Blönduóss um 880 árið 2011 þannig að fækkunin nemur rúmlega íbúafjölda þess sveitarfélags yfir 14 ára tímabil.“
Fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins en meðflutningsmenn eru Einar K. Guðfinnsson Sjálfstæðisflokki, Ásmundur Einar Daðason og Gunnar Bragi Sveinsson Framsóknarflokki, Ólína Þorvarðardóttir Samfylkingu og Lilja Rafney Magnúsdóttir, Jón Bjarnason Vinstrihreyfingunni - grænu framboði.
Þingsályktunartillagan í heild