Bentu á bleiurnar og smokkana í október

mbl.is/Hjörtur

Vakin var athygli á því í umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarp til breytinga á lögum um lækningatæki að samkvæmt því yrði sérstakt eftirlitsgjald meðal annars lagt á vörur eins og plástra, sjúkrakassa, tannþráð, tannkrem, smokka, hjólastóla, bleiur og dömubindi. Umsögnin barst velferðarnefnd Alþingis 15. október síðastliðinn.

Talsverð umræða skapaðist á Alþingi í gær og í fyrrakvöld um þessa hlið frumvarpsins og vöktu þingmenn úr stjórnarandstöðunni athygli á því að samkvæmt því yrði fyrirhugað eftirlitsgjald lagt á áðurnefndar vörur. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna í gær og þegar orðið hafi verið dimmt úti í fyrrakvöld og nokkuð ljóst að enginn fjölmiðlamaður væri í þinghúsinu hefði þetta verið upplýst.

Formaður velferðanefndar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðunni að kveðið væri um ákveðna tollflokka í frumvarpinu sem eftirlitsgjaldið næði til en í ljósi málefnalegrar gagnrýni Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa í velferðarnefnd, í fyrrakvöld teldi hún eðlilegt að nefndin tæki málið aftur til sín og færi yfir tollflokkana.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, var síðan gestur Kastljóssins í gærkvöldi þar sem hann sagði að það hefðu verið mistök að tollflokkarnir sem umræddar vörur féllu undir hefðu ekki verið teknir út úr frumvarpinu. Frumvarpið yrði fyrir vikið tekið til endurskoðunar fram yfir áramót en atkvæðagreiðsla fór fram í gær um málið í kjölfar annarrar umræðu um það.

Eins og fram kemur í upphafi höfðu Samtök atvinnulífsins hins vegar þegar vakið athygli velferðarnefndar Alþingis á því að umræddar vörur féllu undir þá tollflokka sem kveðið væri á um í frumvarpinu um miðjan október og hefði nefndinni og formanni henni því átt að vera það ljóst í það minnsta frá þeim tíma.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert