Þriðju umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2013 er nú lokið á Alþingi og var frumvarpið samþykkt með 28 atkvæðum. 26 þingmenn sátu hjá og 9 voru fjarstaddir.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar sátu hjá auk Lilju Mósesdóttur, þingmanni Samstöðu, Atla Gíslasonar, utan flokka, og Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Þingmenn stjórnarflokkanna samþykktu frumvarpið hins vegar ásamt Guðmundi Steingrímssyni og Róberti Marshall, þingmönnum Bjartrar framtíðar.
Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, sagði í umræðum á þingi í dag að fjárlögin væru sóknarfjárlög þar sem þau gerðu Íslandi kleift að snúa vörn í sókn og Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sagði að með fjárlögunum væri nánast náð jafnvægi í fjárlagahalla ríkissjóðs. Stjórnarandstöðuþingmenn sögðu hins vegar að um kosningafjárlög væri að ræða og að ljóst væri að fjárlagahallinn yrði miklu meiri en gert væri ráð fyrir. Þá voru vinnubrögðin við frumvarpið harðlega gagnrýnd.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að engar breytingartillögur hefðu borist frá Sjálfstæðisflokknum við fjárlagafrumvarpið þrátt fyrir að þingmenn hans hefðu boðað breytingar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði því til að tillögur flokksins snerust um að lækka álögur á fyrirtækin og heimilin í landinu og um þær yrðu greidd atkvæði í þingkosningunum næsta vor.