Fundu hest sem frosinn var fastur

Hestur í snjó.
Hestur í snjó. Morgunblaðið/RAX

Þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands sem tók þátt í leitinni að strokufanganum Matthíasi Mána Erlingssyni í grennd við fangelsið á Litla-Hrauni í gær fann við leitina hest sem stóð úti í miðri tjörn og var frosinn fastur. Ef ekki hefði verið fyrir leitina hefði hesturinn líklega ekki haft það af.

„Við vorum að leita þarna í kringum fangelsið þegar við rákum augun í hestinn þar sem hann stóð úti í miðri tjörn, en það var allt í litlum tjörnum þarna. Það var bersýnilegt að hann var frosinn fastur,“ segir Björn Brekkan Björnsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni.

Ákveðið var að breyta leitinni að fanganum í björgun og var þyrlunni lent við næsta sveitabæ. Þar ræddu gæslumenn við bóndann sem ætlaði að aka á staðinn og bjarga hrossinu. „Hesturinn átti væntanlega ekki mikið eftir. Það sást ekkert í tjörnina né hestinn frá veginum og það var í raun engin leið að sjá hann nema að vera í haganum.“

Þar sem bóndinn ók af stað hélt þyrlusveitin áfram leit sinni að fanganum. „Við renndum svo aðeins síðar yfir svæðið aftur og sjáum að bóndinn var í vandræðum með að komast á svæðið. Þannig að við lentum hjá honum, tókum hann og annan mann upp í og flugum með þá að hestinum. Þeim tókst að brjóta ísinn, losa hestinn og koma honum á þurrt land.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka