Íslendingur vann hetjudáð í Kaliforníu

Brian Roff, sem er lengst til vinstri á myndinni, og …
Brian Roff, sem er lengst til vinstri á myndinni, og systkinin Gary og Paula Lane sögðu sögu sína í spjallþættinum Today Show í New York.

Íslenskur karlmaður vann hetjudáð í byrjun mánaðarins þegar hann ásamt öðrum manni bjargaði konu sem lenti í lífsháska ásamt kærasta sínum á fjallvegi í Norður-Kaliforníu í Bandaríkjunum. Málið hefur vakið mikla athygli í þarlendum fjölmiðlum.

Brian Roff er hálfur Íslendingur og hálfur Bandaríkjamaður sem hefur verið búsettur í Bandaríkjunum frá því um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Mbl.is ræddi við Þóri Roff, hálfbróður Brians, sem sagði frá björgunarafrekinu.

Þann 29. nóvember lentu þau Paula Lane og kærasti hennar, Roderick Clifton, í vandræðum þegar þau festu jeppa í hríðarbyl á fjallvegi í Hope Valley í Sierra Nevada-fjallgarðinum, skammt frá Lake Tahoe. Þau voru þá komin út af aðalveginum á svæðinu, eða Highway 88.

Ekkert fjarskiptasamband er á svæðinu, sem er í um tveggja km hæð yfir sjávarmáli, og var enga aðstoð að fá. Eftir að hafa verið í bílnum, sem komst hvorki aftur á bak né áfram, í einn sólarhring ákvað Clifton að ganga af stað í snjónum til að sækja hjálp. Hann átti ekki afturkvæmt.

Fengu gröfu „lánaða“

Þegar ekkert hafði spurst til parsins í um tvo sólarhringa var fjölmennt lið leitarmanna kallað út en leitin skilaði engum árangri.

Nokkrir daga höfðu liðið frá atvikinu þegar bróðir konunnar, sem heitir Gary Lane, sagði Brian frá því að systir sín væri ófundin, en Brian og Gary hafa þekkst lengi. Þeir ákváðu að fara sjálfir á staðinn til að leita að þeim. Þeir lögðu af stað frá Sacramento og óku til Hope Valley. Þegar þangað var komið lentu þeir einnig í því að festa jeppann sinn í snjó.

Þórir segir að það hafi orðið þeim til happs að í nágrenninu hafi verið þjónustusvæði fyrir skógarverði. Þar var enginn starfsmaður en Brian og Gary sáu hins vegar stóra gröfu. Lyklarnir voru í ökutækinu og því ákváðu þeir að fá hana lánaða, eins og Þórir orðar það.

„Þeir keyra áfram á þann stað þar sem þeir halda að konan gæti verið. Þeir stoppa og fara að leita og þá heyra þeir flaut,“ segir Þórir og bætir við að þetta hafi verið systir mannsins sem var að blístra mjög hátt. „Þeir finna konuna í laut undir tré,“ segir Þórir. Þetta er miðvikudaginn 6. desember sl. og þá var konan búin að vera týnd í tæpa viku.

„Það var eins og þeir vissu hvar hún væri. Þeir bara keyrðu beint inn á svæðið, sem Brian datt í hug að hún myndi vera. Ég veit ekki af hverju hann vissi það; þetta var einhver tilfinning,“ segir Þórir.

Slapp ótrúlega vel

Paula Lane var bæði köld og hrakin þegar þeir komu að henni. Þegar þau voru að snúa til baka koma þau að líki Cliftons skammt frá, sem Lane hafði fundið nokkru áður.

Þórir segir að konan hafi verið flutt á sjúkrahús þar sem hún lá í nokkra daga. Hann segir að hún hafi sloppið ótrúlega vel miðað við aðstæður. Hún hlaut hins vegar kalsár en missti ekki neina útlimi vegna áverkanna. Hún er ekki búin að jafna sig til fulls að því er fram kemur í erlendum fjölmiðlum.

Þórir segir að hún hafi lifað af með því að borða græna tómata, sem hún var með í bílnum, og borða snjó. Hún hafðist við í bílnum til að byrja með en á mánudeginum ákvað hún að hefja leit að kærastanum, en hún var hins vegar ekki vel klædd.

Í viðtali hjá Today Show í New York

„Svo verður allt vitlaust niðri í Sacramento þegar fréttist, að henni hafi verið bjargað, en að leitarsveitirnar hafi ekki fundið neitt. Þá er Brian allt í einu orðinn stór hetja; kominn í allar fréttastöðvar þarna á Sacramento-svæðinu,“ segir Þórir.

Fréttin fór svo að vekja athygli á landsvísu og var Paulu Lane, Gary Lane og Brian boðið að koma til New York til að spjalla við fréttamanninn Matt Lauer, sem er stjórnandi Today Show hjá NBC. Það innslag birtist 12. desember sl.

Þórir spaugar með það að Brian hafi verið mjög fámáll í sófanum en til allrar hamingju hafi Paula Lane séð að mestu um spjallið við Lauer

Aðspurður segir Þórir að það sé ansi gaman að þessu. „Þetta var alltaf skemmtilegur strákur. Alltaf bjartsýnn og gefandi strákur,“ segir Þórir um litla bróður sinn í Bandaríkjunum, sem hann heyrir í af og til.

Þórir segir að þrekvirkið sé að sjálfsögðu sú staðreynd að Brian hafi tekist að finna og bjarga konunni. „En það sem skeði eftir á er hálfgerður brandari. Að fljúga til New York og sitja í sófanum með Matt Lauer og segja ekki neitt og fljúga svo aftur til Kaliforníu,“ segir hann stoltur af bróður sínum og hlær.

Frétt CBS í Sacramento frá 6. desember.

Viðtalið í Today Show frá 12. desember.

Sierra Nevada fjallgarðurinn í Kaliforníu. Mynd af vef Wikipediu.
Sierra Nevada fjallgarðurinn í Kaliforníu. Mynd af vef Wikipediu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert