Nær 100 ára með ritræpu

Vilhjálmur Hjálmarsson
Vilhjálmur Hjálmarsson mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

„Þetta er helvítis ritræpa, en ég byrjaði ekki á þessu fyrr en ég varð löggilt gamalmenni,“ segir Vilhjálmur Hjálmarsson, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, um bókaskrifin undanfarna þrjá áratugi, en á dögunum sendi hann frá sér bókina Glettur og gamanmál, sem Bókaútgáfan Hólar gefur út.

 „Ég kann ekkert handverk svo ég verð að hafa einhvern fjárann að gera og hef verið að nudda við þetta.“

Það er örugglega ekki margt 98 ára gamalt fólk sem situr við skriftir og sér að minnsta kosti tvö ár fram í tímann hvað bókaútgáfu varðar. Vilhjálmur á Brekku í Mjóafirði lætur ekki deigan síga þrátt fyrir aldurinn og hefur verið iðinn við kolann, en fyrsta bók hans, Raupað úr ráðuneyti, kom út 1981. Hann segir að á yngri árum hafi hann ekki haft neina sérstaka löngun til bókaskrifa. „Ég hafði samt alltaf gaman af því að skrifa og skrifaði löng sendibréf þegar ég var um tvítugt, bæði til konuefnisins og skólafélaga minna. Þetta var einhver árátta enda skrifaði ég auðveldlega 20 síðna bréf.“

Gaman og alvara

Vilhjálmur segir að sérstaklega hafi verið gaman að skrifa um bernsku- og æskuárin. „En nauðsynlegast var að skrifa bókina Þeir breyttu Íslandssögunni sem kom út 1995,“ segir hann. „Á hverri öld hefur orðið horfellir á Íslandi þangað til á 20. öldinni. Þegar illviðrin gengu yfir 1951 voru nokkrir bílstjórar með jarðýtur og fleira sem björguðu Fljótsdalshéraðinu. Það var ægileg snjódyngja á Austur- og Norðausturlandi, sú mesta um mína daga. Símalínan var til dæmis komin á kaf sumstaðar á Fagradal. Bókin er að hálfu leyti um styrjöldina við óveðrið og að hálfu leyti um útgerð Færeyinga á árabátum, en þeir voru mjög margir hérna fyrir austan um áratugaskeið og ekkert annað hefur verið skrifað um þessa útgerð á íslensku.“

Bóndinn hefur búið á Egilsstöðum síðan í haust. „Ég var ekki spítalatækur og varð því að fá mér íbúð því það var ekkert vit í því að vera á Brekku á veturna. Þegar maður er orðinn svona gamall þarf maður ekki annað en reka tærnar í og detta á hausinn til þess að allt fari úr skorðum. Tengdadóttir mín á Brekku, Jóhanna Lárusdóttir, gerði allt sem þurfti að gera fyrir mig. Ég var helvíti slæmur í bakinu í sumar, hryggjarliðir hrundu og ég er því mjög boginn, en þetta gekk yfir og nú snúast 10 til 20 konur í kringum mig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert