Ragnarökleysan mikla

Þrátt fyrir að fólk hérlendis sé ekki mjög upptekið af spám um yfirvofandi ragnarök er ekki sömu sögu að segja af öllum. Samkvæmt trúnni mun dulin pláneta í sólkerfinu rekast á jörðina á morgun en tvær bækur hafa haft mikil áhrif á spána. 

Í Rússlandi hefur mikill ótti gripið um sig á meðal fjölda fólks, fólk streymir að smábæ í Frakklandi þar sem margir eiga von á að geimverur muni lenda og bjarga útvöldum um borð í geimskip. Á sama tíma hafa hátt í hundrað Kínverjar verið handteknir í heimalandi sínu fyrir að breiða út ótta og hafa trúgirni fólks að féþúfu. Í Argentínu hefur aðgengi að fjallinu Uritorco verið lokað þar sem grunur leikur á að verið sé að skipuleggja fjöldasjálfsmorð í hlíðum þess á samskiptavefnum Facebook.

Tvær bækur hafa haft mikil áhrif á hversu útbreidd trúin er, annarsvegar bókin The Fingerprints of the gods eftir Graham Hancock og hinsvegar The Mayan Prophecies eftir Adrian Gilbert og Maurice Cotterell. Sú fyrrnefnda var kveikjan að Hollywood-myndinni 2012 og sú síðarnefnda var metsölubók á síðasta áratugi síðustu aldar. En Hilmar Örn Hilmarsson, tónskáld og allsherjargoði, er sérstakur áhugamaður um slíka spádóma og hann las bókina á sínum tíma og segir hana vera óttalega þvælu þó hægt sé að hafa af henni gaman. Hilmar segir einnig að ártalið 2012 hafi lengi verið vinsælt í þessum efnum og hafi margoft komið upp í þessu samhengi allt frá sjöunda áratugi síðustu aldar. 

Samkvæmt trúnni lokast ríflega fimmþúsund ára hringur í tímatali Maya-indíána í S-Ameríku á deginum. Margir trúa að þá muni birtast ný eða dulin pláneta í sólkerfinu sem nefnist Nibiru og að hún muni rekast á jörðina með tilheyrandi óþægindum. 

Á dögum takmarkalausra boðskipta dreifist slíkt efni hratt út og á Youtube má finna myndskeið af hinni meintu plánetu Nibiru og fjölmörgum túlkunum á tímatali Mayana. Ekki er þó öll von úti þar sem spádómurinn og aðferðafræðin að baki honum hefur verið hrakinn af vísindamönnum margoft, bæði sérfræðingum í sögu og menningu Maya og stjörnufræðingum. Þá er gríðarlegt magn af upplýsingum á netinu þar sem spáin er hrakin og lítið úr henni gert.

Að öllum líkindum verður morgundagurinn því ofureðlilegur fyrir flesta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert