Tímabært að fara yfir málin

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Ég tel að nú eftir ríkjaráðstefnuna, þá síðustu á þessu ári, hafi staða skýrst og það sé góður tími til þess að fara yfir það hvar þetta mál er statt varðandi þær tafir sem á því hafa orðið og þau deilumál sem uppi eru. Sem og að ræða þá framhaldið og hvernig haldið verður á málinu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Einari K. Guðfinnssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Einar spurði ráðherrann hvaða afstöðu hann hefði til þingsályktunartillögu sem lögð hefði verið fram í utanríkismálanefnd þingsins í fyrradag af meirihluta hennar þar sem lagt hafi verið til að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið yrði lögð til hliðar og málið ekki tekið upp að nýju nema að undangengnu samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sagðist Steingrímur ekki hafa miklu við málið að bæta en það sem komið hefði fram í máli hans áður. Málið væri stærra en svo að hann ætlaði að fara að svara fyrir það í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. „Það ræðum við í okkar þingflokki og við okkar samstarfsflokk.“ Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að haldið væri vel á málinu í ljósi stærðar þess og mikilvægis fyrir Íslands hvernig sem það annars færi á endanum.

Skaut á Sjálfstæðisflokkinn og Jón Bjarnason

„Mér finnst það í sjálfu sér áhugavert út af fyrir sig svona stjórnmálalega séð að Sjálfstæðisflokkurinn, að því er virðist, virðist nú kjósa þá leið að móta sína afstöðu í þessu stóra, risastóra utanríkispólitíska, eða að minnsta kosti formgera sína afstöðu í samstarfi við háttvirtan þingmann Jón Bjarnason inni í utanríkismálanefnd. Sem að báðir aðilar telja sér að sjálfsögðu til virðisauka,“ sagði Steingrímur ennfremur.

Einar sagði að ráðherrann gæti ekki komið sér hjá því að ræða þetta mál. Hann hlyti að hafa á því skoðun með hvaða hætti ætti að halda á því. Hvort setja ætti það til dæmis á ís, gera styttra hlé á því eða kalla eftir viðhorfum þjóðarinnar. Þá sagði Einar það ekki rétt að Sjálfstæðisflokkurinn væri að móta sína afstöðu í samstarfi við Jón Bjarnason, þingmann Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, enda væri tillaga meirihluta utanríkismálanefndar í fullu samræmi við samþykkt stefnu sjálfstæðismanna á síðasta landsfundi.

„Varðandi okkur vinstri-græn þá höfum við auðvitað gert það alveg ljóst frá haustmisserinu, við höfum ályktað um það í okkar flokksráði, að við viljum nú fara yfir stöðuna í þessu máli þegar hallar að lokum kjörtímabilsins. Nú er að skýrast og liggur nokkuð ljóst fyrir eftir ríkjaráðstefnuna hvar þetta mál muni standa við alþingiskosningar í vor og þegar nýtt kjörtímabil Alþingis hefst. Þannig að nú geta menn farið yfir það hvernig á að halda á þessu máli í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í íslenskum stjórnmálum og við sjáum blasa við framundan,“ sagði Steingrímur.

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður.
Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert