Fara um leið og þeir geta

Landspítali Háskólasjúkrahús Hringbraut.
Landspítali Háskólasjúkrahús Hringbraut. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Nýútskrifaður sálfræðingur sem hefur störf á Landspítalanum fær 305.199 krónur í heildarlaun, fyrir skatta, að loknu fimm ára háskólanámi. Vinnuálag á spítalanum hefur aukist gríðarlega. Sálfræðingafélag Íslands hefur ályktað að við þessa stöðu verði ekki unað.

Rétt um 50 sálfræðingar vinna á Landspítalanum, bæði á geðdeild og öðrum deildum hans, að sögn Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Sálfræðingafélags Íslands. Halla segir að sálfræðingarnir hafi ekki haft hátt um sín kjör en þar sé úrbóta þörf líkt og hjá öðrum heilbrigðisstéttum á spítalanum.

Sérþekkingu þarf fyrir erfiðustu tilfellin

„Launakjörin eru allt of léleg. Þetta á að vera stofnun sem veitir langsérhæfðustu heilbrigðisþjónustu í landinu. Þarna er verið að sinna allra erfiðustu tilvikunum í öllum greinum en launin endurspegla engan veginn þá sérþekkingu sem þarf að vera fyrir hendi til þess að veita þessa þjónustu.“

Sálfræðingafélagið hefur sent frá sér ályktun þar sem er tekið heilshugar undir með umræðu um bág kjör háskólamenntaðra heilbrigðisstétta á Landspítala. Bent er á að vinnuálag hafi aukist gríðarlega síðastliðin ár á spítalanum og starfsmenn hafi virkilega lagt sig fram, þrátt fyrir slæm kjör. Við þessa stöðu verði ekki unað.

Sálfræðingar fara annað um leið og þeir geta

„Álag á sjúklinga og aðstandendur eykst auðvitað með þessari gríðarlegu niðurskurðarkröfu í kerfinu,“ segir Halla. Aðspurð hvort sálfræðingar á Landspítala hafi gripið til fjöldauppsagna líkt og hjúkrunarfræðingar segist Halla ekki vita til þess. „En það sem við vitum er að spítalinn hefur í raun og veru þjónað sem ákveðin þjálfunarstöð, þar sem fólk kemur inn, fær góða þjálfun og fer svo annað um leið og það hefur tækifæri til.“

Sálfræðingafélag Íslands skorar á stjórnendur Landspítala og heilbrigðisyfirvöld að nýta tækifærið sem gefst í stofnanasamningum til að leiðrétta þessa stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert