„Það var ákveðinn hópur fólks sem myndaði skjól fyrir lögreglumenn, gekk fram fyrir lögreglumenn og rétti upp hendur og varði lögreglumennina sem voru á staðnum,“ segir Kristján Helgi Þráinsson, varðstjóri hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, um þann atburð þegar mótmælendur gengu í lið með lögreglu.
Í þættinum 112 hér á MBL Sjónvarpi er fjallað um mótmælin í miðborginni 21. janúar 2009, en þann dag voru mótmælin hörðust og breyttust um tíma í óeirðir. Lögregla greip til þess ráðs að beita táragasi á Austurvelli en þá fóru mótmælendur upp að Stjórnarráðshúsinu.
Lögregla var fáliðuð við Stjórnarráðshúsið og mátti sín lítils gegn mótmælendum. „Á þessum punkti verður stefnubreyting,“ segir Kristján Helgi. Mótmælendur gengu fram fyrir skjöldu, vörðu lögreglumenn og eftir það urðu ekki óeirðir. „Eftir það varð þetta allt annað líf. [...] Síðan voru mótmæli daginn eftir líka og þá vorum við í raun og veru ekkert grýttir. Það var mildara en hafði verið.“