„Hryssan er að braggast“

„Hryssan er að braggast,“ segir Steinn Skúlason á Eyrarbakka, faðir eiganda hryssunnar sem þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar fann frosna við ís er hún leitaði strokufangans í fyrradag. „Við héldum að hún myndi drepast, hún var svo illa á sig komin. Í gær vorum við að því komnir að aflífa hana en svo kom dýralæknir og gerði kraftaverk. Hún stóð upp og er á réttri leið.“

Björn Brekkan Björnsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, sagði í samtali við mbl.is í gær að við leit úr lofti að strokufanganum Matthíasi Mána Erlingssyni á miðvikudag hefði áhöfn þyrlunnar komið auga á hest sem var frosinn fastur. Þegar í stað hefði verið ákveðið að breyta leitinni að fanganum í björgun og var þyrlunni lent við næsta sveitabæ. Þar ræddu gæslumenn við bónda sem hafði samband við eigandann er ók í kjölfarið á staðinn ásamt vinafólki til að sækja hestinn.

„Ég, sonur minn og fleiri fórum strax á staðinn og þá var ástand hennar orðið mjög lélegt,“ segir Steinn, en sonur hans, Skúli, er eigandi hryssunnar. „Við urðum að setja hana í traktorsskóflu og flytja hana þannig heim í hús.“

Feðgarnir settu sig í samband við dýralækni og hryssan fór undir teppi og reynt var með öllum ráðum að hnoða í hana hita og líf.

„Hún hefur legið á ísnum í einhvern tíma, ég veit ekki hve lengi,“ segir Steinn. Hann segir hryssuna líklega hafa runnið á ísnum á tjörninni og ekki getað staðið upp aftur. Hins vegar hafi hún reynt það af öllum mætti, örmagnast og svo kólnað og loks frosið föst við ísinn.

„Svo lá hún alveg flöt inni í hesthúsi hjá mér undir teppi. Í gær kom dýralæknirinn og gaf henni stera og fljótlega stóð hún upp. Þegar hún stóð upp urðum við vonbetri um að hún myndi hafa þetta af.“

Ætla að nefna hana Þyrlu

Steinn segir hryssuna, sem er móvindótt að lit, í miklu uppáhaldi hjá Skúla syni sínum. Hún sé undan Glym frá Skeljabrekku og því talin efnileg. Hún er þó aðeins tveggja vetra og hingað til hefur hún ekki haft nafn. En eftir þessar hremmingar, fær hún nafn?

„Já, við erum að hugsa um að kalla hana Þyrlu,“ segir Steinn þótt það sé ekki endanlega ákveðið.

Steinn segir alveg á hreinu að hefði þyrluáhöfnin ekki komið auga á hana hefði hún drepist. „Þeir björguðu henni, blessaðir drengirnir. Svo útkallið var ekki til einskis, þótt strokufanginn hafi ekki fundist.“

Steinn vill þakka áhöfninni innilega fyrir.

Hann segir hryssuna byrjaða að éta og að hún verði inni og undir eftirliti að minnsta kosti næstu tvær vikurnar.

„Hún verður í miklu dekri hjá okkur yfir jólin,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Hestur var frosinn fastur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka