Lítil mengun frá líkbrennslu

Duftker.
Duftker.

Áhrif líkbrennslunnar í Fossvogi á kvikasilfursinnihald jarðvegs í grenndinni eru óveruleg. Þetta sýnir rannsókn, sem gerð var fyrr á árinu. „Það var orðrómur um að brennslan mengaði, en reykurinn frá henni stígur stundum upp og þá drógu sumir þá ályktun að hann væri mjög mengandi,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis.

„Heilbrigðiseftirlitið fylgist reglulega með þessu, en við ákváðum að láta fara yfir þetta og taka jarðvegssýni,“ segir Þórsteinn.

Tekin voru 15 jarðvegssýni frá fimm stöðum í nágrenni Fossvogskirkju sumarið 2011 og voru sýnatökustaðirnir valdir með hliðsjón af loftdreifingarspá um dreifingu útblásturs frá reykháfi líkbrennslunnar.  

Innihald kvikasilfurs í sýnunum var á bilinu <0,05-0,15 mg/kg þe. sem telst lágt samkvæmt skýrslunni og þar segir að ekki verði séð að jarðvegur á þessu svæði sé mengaður af kvikasilfri, nema í mjög óverulegum mæli.  

Mismikill reykur af líkbrennslu

Þórsteinn segist skilja mætavel að fólki gæti þótt sjónmengun að því að sjá reyk stíga upp úr reykháfi líkbrennslunnar, en þó sé allur gangur á því hvort það gerist. 

„Við höfum ekki fengið neinar efnafræðilegar skýringar á því hvers vegna stundum rýkur og stundum ekki, en stundum tengist það veðurfari. Þetta gæti verið vegna lyfjaneyslu hins látna, hvað er í kistunni, t.d. ef þar er eitthvað sem ekki er vistvænt til dæmis úr nælonefnum. Þá getur komið dökkur reykur og það er vegna hans sem við höfum fengið athugasemdirnar. Einstaka sinnum er veðráttan þannig, að ef það slær niður í reykháfinn geta þeir sem eru nálægt bálstofunni fundið torkennilega lykt.“

35% láta brenna sig

Að sögn Þórsteins eru 35% þeirra grafa sem teknar eru í Reykjavíkurprófastsdæmi fyrir duftker, en talan er nokkru lægri yfir landið allt eða 22%. Lík eru brennd á þriðjudögum og ef fjöldinn er mikill er það líka gert á miðvikudögum. 

„Við erum talsvert á eftir hinum Norðurlöndunum hvað þetta varðar. Til dæmis eru um 70% allra þeirra sem látast í Danmörku brenndir og hlutfallið í borgunum er um 90%,“ segir Þórsteinn.

Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæmis.
Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæmis.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert