Mögulegt að klára í dag

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn

„Ég tel að það sé hægt að klára í kvöld ef allir leggjast á eitt en við þurfum bara að sjá hvernig þingstörfunum vindur fram í dag,“ segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is spurð hvenær gert sé ráð fyrir að Alþingi fari í jólaleyfi.

Þingfundur hófst á Alþingi klukkan tíu en samkvæmt fyrirliggjandi dagskrá þingsins er gert ráð fyrir því að 19 mál verði tekin fyrir í dag. Takist ekki að klára þau mál sem samkomulag er um að klára fyrir jólaleyfi má gera ráð fyrir að þingfundur verði einnig á morgun.

Meðal þeirra mála sem taka á fyrir í dag er frumvarp að lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, frumvarp um breytingar á lögum um rannsóknarnefndir og breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Ennfremur lagafrumvarp til breytinga á dómstólalögum, barnalögum og lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Ásta Ragnheiður tilkynnti í upphafi þingfundar að samkomulag væri um það að þingfundur gæti staðið lengur í dag en þingsköp kveða á um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert