„Nú er tækifærið“

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, skora á þingmenn og forystu beggja stjórnarflokka til að sameinast og leggja frumvarp um fiskveiðistjórnun fram hið fyrsta.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá þeim. Þær segja að frumvarpið sem nú bíði sé vissulega málamiðlun, en það sé stórt skref í rétta átt.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Nú þegar nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun,  sem verið hefur eitt stærsta deilumál þjóðarinnar,  bíður framlagningar í þinginu er brýnt að niðurstaða náist sem fullnægi grundvallarsjónarmiðum um þjóðareign auðlindarinnar, jafnræði, nýliðunarmöguleika og bætt  búsetuskilyrði í landinu.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

Með frumvarpinu eru stigin skref til þess að opna það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði með því að taka upp tímabundin nýtingarleyfi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með opnum og vaxandi  leigumarkaði með aflaheimildir, sem óháður er  núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir undan því leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði og eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða. Er þar með komið til móts við sjálfsagða kröfu um jafnræði, atvinnufrelsi og aukna nýliðun.
 
Frumvarpið sem nú bíður er vissulega málamiðlun, en það er stórt skref í rétta átt – skref sem við teljum rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.

Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi, launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.

Því skorum við á þingmenn og forystu beggja stjórnarflokka að sameinast um færar leiðir til lausnar á þessu langvarandi deilumáli og leggja frumvarpið fram hið fyrsta.  Afkoma sjávarútvegs er nú með besta móti, hún hækkaði um 26% milli áranna 2010/2011 og hreinn hagnaður var um 60 milljarðar króna  á síðasta ári. Mikið er í húfi fyrir byggðir landsins og þær tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi.

Nú er tækifærið – óvíst er að það gefist síðar.“

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert