Lögreglan handtók í gær tvo karlmenn sem tengjast Matthíasi Mána Erlingssyni refsifanga sem strauk úr fangelsinu á Litla-Hrauni á mánudag. Mennirnir voru yfirheyrðir fram á nótt en að yfirheyrslum loknum sleppt. Lögregla gefur ekki nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Báðir voru mennirnir handteknir á Suðurlandi, annar í heimahúsi á ótilgreindum stað en hinn í langferðabíl. Þeir voru handteknir vegna gruns um að aðild að flótta Matthíasar Mána, en þeir tengjast Matthíasi báðir. Ekki fékkst þó uppgefið hvernig.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur fjöldi vísbendinga borist vegna flóttans. Þær hafa flestar verið skoðaðar en án þess að Matthías hafi fundist. Leitin að Matthíasi Mána heldur því áfram.