Stærstu málin bíða ársins 2013

Það var létt yfir þingmönnum í umræðum í þinginu undir …
Það var létt yfir þingmönnum í umræðum í þinginu undir lok vikunnar. En sumir í þungum þönkum. mbl.is/Eggert

Það skýtur óneitanlega skökku við eftir nánast fordæmalaust átakakjörtímabil að þingmenn skuli skyndilega verða sammála um að halda jólin heima hjá fjölskyldum sínum. Hingað til hafa skylmingarnar staðið yfir þar til korteri fyrir skaup.

Minnihlutastjórn

Ástæðan er eflaust sú að stóru málin eru ekki tilbúin úr stjórnarráðinu, auk þess sem ríkisstjórnin hefur ekki lengur afl til að halda þinginu í gíslingu. Kvarnast hefur úr meirihlutanum jafnt og þétt allt kjörtímabilið, allt frá því deilurnar stóðu sem hæst um Icesave-málið. Eftir að Róbert Marshall yfirgaf skútuna er ríkisstjórnin orðin minnihlutastjórn, sem skákar í skjóli nýju framboðanna Hreyfingarinnar og Bjartrar framtíðar. Þá er ljóst að formenn stjórnarflokkanna njóta ekki trausts allra í þingflokksherbergjunum og því er erfiðara að smala köttum til að keyra óvinsæl mál í gegnum þingið.

Kvartað hefur verið undan málþófi stjórnarandstöðu. Og víst er fyrir því löng og hvimleið hefð sem Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir þekkja mætavel. Sú síðarnefnda á raunar Íslandsmetið – enginn hefur talað lengur í pontu á Alþingi. En ekki verður horft framhjá því, að það er áhrifaríkasta leiðin fyrir stjórnarandstöðuna til að hafa áhrif. Ekki síst á tímum þar sem mikið er í húfi og lítið traust ríkir milli flokkanna á þingi.

Rammaáætlunin

Það kom fram hjá Steingrími J. Sigfússyni í Kastljósi á dögunum að ríkisstjórnin hefði lofað að ganga frá rammaáætluninni þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður, en að í því hefði ekki falist að hlustað yrði á sérfræðinganefndina eða mat faglegrar verkefnisstjórnar, en henni hafði verið falið að leggja fram tillögur sem gætu orðið grundvöllur að þverpólitískri sátt.

Steingrímur segir það nóg að ná í gegn rammaáætluninni á kjörtímabilinu, þó ljóst megi vera að stjórnarandstaðan og eins Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafi reitt sig á að ráðist yrði í þá virkjunarkosti sem teldust vænlegir. Enda segir í umsögn Orkustofnunar um þingmálið að „hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjanakostirnir séu fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk“, en þar er m.a. átt við þrjár vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá á Suðurlandi, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.

Þetta er eitt af þeim stóru málum sem gengið verður til atkvæða um í þinginu eftir áramót og ljóst má vera að næstu kosningar munu að miklu leyti snúast um orkunýtingu þjóðarinnar.

Stór mál á biðlista

Annað stórt mál sem bíður er fiskveiðistjórnunarfrumvarpið, en Steingrímur hefur ekki treyst sér til að leggja málið fram, þar sem óvíst er um stuðning þingflokks Samfylkingarinnar. Á meðal þingmanna sem setja fyrirvara við stuðning sinn eru Mörður Árnason og Ólína Þorvarðardóttir.

Þá bíður stjórnarskrármálið fram yfir áramót en ríkisstjórnin leggur á það áherslu að ljúka því sem fyrst. Ríkisstjórnin telur sig hafa byr til þess úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og gefur lítið fyrir dræma kosningaþátttöku. Enn er beðið umsagna sérfræðinga um þennan hornstein lýðræðisins. Sérfræðingar sem leitað hefur verið til hafa varað við verulegri réttaróvissu í veigamiklum málum, sem ekki sjái fyrir endann á. En sumir þeirra hafa talað um að einstakir kaflar gætu verið tilbúnir til afgreiðslu og vera má að stjórnarandstaðan fallist á það ef til samráðs kemur. Eins og vant er, þá eru spurningamerkin mörg yfir hátíðarnar og kannski óvenju mörg inn í kosningaárið.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert