Verður 45 stiga frost í Mývatnssveit?

Eins og sjá má er spáð 45 stiga frosti í …
Eins og sjá má er spáð 45 stiga frosti í Mývatnssveit. Mynd/Veðurstofa Íslands

Samkvæmt sjálfvirkri spá Veðurstofu Íslands sem birt er á vefsvæði hennar er gert ráð fyrir 45 stiga frosti í Mývatnssveit á miðnætti 28. desember. Nákvæmlega sólarhring áður er gert ráð fyrir 41 stigs frosti. Fréttavefurinn 641.is bendir á þetta.

Þar kemur einnig fram að á miðnætti á aðfangadagskvöld er spáð 20 stiga frosti í Mývatnssveit. Á miðnætti á jóladag er spáð 29 stiga frosti og 41 stigs frosti er spáð aðfaranótt 27. desember. 

„Gangi þessi spá eftir verður kuldametið frá Grímsstöðum á Fjöllum líklega slegið allhressilega á milli jóla og nýárs,“ segir á 641.is.

Eins og greint var frá á mbl.is í morgun koma dægurmet til með að falla rætist kuldaspá fyrir landið í næstu viku. Það er ekki síst sérstakt þar sem dægurhitamet voru sett á nokkrum stöðvum sem mælt hafa lengi í gær, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli.

Kuldametið var sett 21. janúar 1918 á Grímsstöðum. Svo segir á vefsvæði Veðurstofunnar: „Klukkan 8 að morgni þess 21. gerði Sigurður á Grímsstöðum eftirfarandi mælingu: Þurri mælirinn sýndi 36,0 stiga frost, sprittstaða lágmarksmælisins var 38 stiga frost og lágmarkið 38 stig. Í árbók dönsku veðurstofunnar, Meteorologisk Aarbog 1918, eru þessar mælingar birtar leiðréttar: Þurr hitamælir: -35,9°C, lágmark: -37,0°C. Mismunur á sprittstöðu lágmarksmælis og þurrum hita var 2,0 stig þennan morgun eins og sjá má. Rými er fyrir leiðréttingu allt að tveimur stigum.

Klukkan 14 var hitinn kominn niður í -36,5° (prentað sem -36,4° í árbókinni) og kl. 21 var hitinn aftur -36,0. Morguninn eftir (þann 22.) var hitinn kominn upp í -22,0°, en sprittstaða lágmarksmælis var -23,5°. Mismunurinn er 1,5°. Sigurður skynjaði mikilvægi augnabliksins og las hann því lágmarkið með óvenju mikilli nákvæmni sem -38,9°C. Danska veðurstofan bætir síðan hinni venjulegu 1 gráðu við og fær út -37,9°C og það hefur lengst af staðið sem íslenskt lágmarksmet. Vel má vera að það sé nákvæmlega rétt.“

Eftir 1918 hefur hiti á veðurstöð aldrei farið niður fyrir -35°C.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka