Það sem af er vetri hefur að minnsta kosti 22 sinnum verið ekið á gangandi vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu. Þar af urðu tvö banaslys, en aukning hefur orðið í banaslysum þar sem ekið er á gangandi. Í nýrri skýrslu um öryggi gangandi vegfarenda segir að víða sé pottur brotinn í merkingum og oft séu ökumenn og vegfarendur ekki klárir á því hver hafi forgang.
Öldruð kona og eldri maður létust
Á fimm ára tímabili frá 2007-2011 urðu 13 banaslys þar sem ekið var á gangandi vegfarenda, samkvæmt samantekt Rannsóknarnefndar umferðarslysa. Þar af urðu fjögur banaslysanna í fyrra. Þetta er fjölgun frá tímabilinu þar á undan, frá 2002-2006, þegar 9 létust í slíkum banaslysum. Á sama tíma fækkaði banaslysum vegna árekstra tveggja bíla. Vegna þessa leggur rannsóknarnefndin sérstaka áherslu á umferðaröryggi óvarinna vegfarenda.
Nú í desember varð banaslys á Nýbýlavegi þegar kona á níræðisaldri varð fyrir strætisvagni. Að minnsta kosti 21 annað slys þar sem ekið er á gangandi hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu þar sem af er vetri, m.a. á Sæbraut, Lækjargötu, Fífuhvammsvegi og Álandi.
Þá lést þann 14. desember maður á sjötugsaldri, sem varð fyrir bíl á Sæbraut þann 22. nóvember. Manninum var haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans í rúmar þrjár vikur áður en hann lést.
Flest slysin í myrkustu mánuðunum
mbl.is óskaði eftir tölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu yfir slys af þessu tagi og var 4 ára tímabil skoðað, frá 1. janúar 2009 til 30. nóvember 2012. Taka skal fram að lögreglan hefur aðeins vitneskju um hluta þeirra slysa sem eiga sér stað, þar sem ekki eru öll slys tilkynnt. Þá kom í ljós í greiningu lögreglu að slysin eru ekki öll eins skráð og reyndist því þörf á að víkka út greininguna.
Flest slys þar sem ekið er á gangandi vegfarendur eiga sér stað yfir vetrarmánuðina,ekki síst apríl, október og nóvember, en einnig janúar og september. Mun færri slík slys verða yfir hásumarið. Má því geta sér þess til að myrkur og slæmt skyggni hafi þar mikið að segja.
4% ökumanna óku burt af vettvangi slyssins
Algengast er líka að slysin verði síðdegis, það er á milli klukkan 12 og 18, þegar hvað flestir eru á ferðinni. Athygli vekur þó að á þessu ári hefur 16 sinnum verið ekið á gangandi vegfarenda að nóttu til sem er talsvert oftar en á síðustu þremur árum, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.
Þegar nánar er litið á aðdraganda slysanna kemur í ljós að 84% tilfella á tímabilinu var ekið á gangandi vegfarendur á akbraut, þar sem ekki er gangbraut. Slíkum slysum fjölgar milli ára frá 2010 til 2011. Á hinn bóginn fækkar slysum þar sem ekið er á gangandi vegfarendur á gangbrautum. Í 4% tilfella ók ökumaður í burtu a vettvangi slyssins.
Á gráu svæði hver á réttinn
Verkfræðistofan Mannvit gerði nýlega úttekt á umferðaröryggi og rétti gangandi vegfarenda í umferðinni og í niðurstöðunum, sem birtar voru í skýrslu nú í desember, kemur m.a. fram að ökumenn og gangandi vegfarendur séu oft ekki vissir um hvor eigi réttinn við gatnamót, enda sé það oft á gráu svæði.
Þetta sé ekki til að bæta öryggi vegfarenda en ljóst sé að tiltölulega einfalt væri að koma í veg fyrir þessa óvissu með uppsetningu á gangbrautarskiltum þar sem skipulagsyfirvöld og veghaldari vilja halda skýrum forgangi fyrir gangandi.
Ósamræmi milli sveitarfélaga
„Því miður virðist víða pottur brotinn þegar kemur að uppsetningu gangbrautarskilta en mjög mikilvægt er að allir vegfarendur geri sér grein fyrir aðstæðum hverju sinni og hvaða reglur séu í gildi,“ segir í niðurstöðum skýrslu Mannvits. Mismunandi virðist vera eftir sveitarfélögum hvar merktar gangbrautir eru staðsettar og hversu margar þær eru.
Mjög margar gerðir eru líka af ómerktum þverunum yfir götur og lítið samræmi milli þeirra. Til dæmis er samkvæmt skýrslunni mikið misræmi milli sveitarfélaga og veghaldara í hönnun gönguþverana. Ekki er með öllu ljóst hver staða gangandi vegfarenda er við mismunandi aðstæður í umferðinni þegar engin gangbraut er til staðar.
Nauðsynlegt er að mati skýrsluhöfunda að skipulagsyfirvöld og vegahaldarar samræmi aðgerðir á gráum svæðum og vinni sameiginlegar leiðbeiningar um forgang og öryggi gangandi vegfarenda.
Uppfært 27. desember: Í fyrstu útgáfu fréttaskýringarinnar var sagt að eitt banaslys hefði orðið það sem af er vetri þar sem ekið var á gangandi vegfarenda. Hið rétta er að í desember létust tveir í kjölfar slíkra slysa. Hefur það nú verið leiðrétt.