Fjölmargir gengu í þágu friðar

Fjölmargir friðarsinnar tóku þátt í árlegri friðargöngu niður Laugaveginn í kvöld og var stemningin hátíðleg og friðsöm, að sögn blaðamanns mbl.is á staðnum. Á sama tíma var einnig gengið á Akureyri og Ísafirði. 

Það er samstarfshópur friðarhreyfinga sem stendur fyrir friðargöngunni, en íslenskir friðarsinnar hafa efnt til göngunnar í rúmlega þrjá áratugi.

Í lok göngunnar var fundur við Ingólfstorg þar sem Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, flutti ávarp. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð söng í göngunni og við lok fundar, undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

Í kvöld verður svo samsöngur Tenóranna þriggja í Jólabænum. Á vef Miðborgarinnar segir að undir forystu Jóhanns Friðgeirs Valdimarssonar muni þríeykið Jóhann, Garðar Thor Cortes og Snorri Wium stíga fram á Þorláksmessukvöld kl. 21 á svölum Hótel Víkur við Jólabæinn á Ingólfstorgi og hefja upp raust sína í sígildum jólalögum við undirleik Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara sem jafnframt er tónlistarstjóri Hörpunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert