Vegagerðin vinnur eftir snjómokstursreglunum fram á miðjan dag á morgun. Ef ástand er gott gæti þjónustu lokið fyrr. Miðað er við að mokstursmenn hafi lokið störfum og verði komnir í starfsstöð eigi síðar en klukkan 16. Þá verður færð ekki könnuð nema á umferðarþyngstu vegum.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Þar segir að upplýsingaþjónustan verði opin á aðfangadag jóla frá kl. 06:30 til kl. 13:00 en þá taki bakvakt við. Ef álag er mikið verði símaþjónustan lengd.
Á jóladag verður upplýsingaþjónustan opin frá kl. 10:00 til 12:00 en þá tekur bakvakt við. Venjulegur þjónustutími verður á annan í jólum frá kl. 06:30 til 22:00 og þá er þjónusta samkvæmt snjómokstursreglunum.
Aðeins er þjónusta á leiðum sem hafa sjö daga þjónustu á jóladag.
Þá verður færð á vegum ekki könnuð á vettvangi nema á umferðarþyngstu vegum. Upplýsingar um færð og veður taka annars mið af gögnum frá veðurstöðvum og myndavélum.