Stefnir í 20-25 stiga frost

Frost verður víðast hvar um 5-10 stig.
Frost verður víðast hvar um 5-10 stig. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Spár benda til þess að frostið á land­inu verði senni­lega mest næst­kom­andi miðviku­dag og verði um 20-25 stig í innsveit­um norðaust­an- og aust­an­lands, en víðast ann­ars staðar 5-10 stig. Þetta seg­ir Ein­ar Svein­björns­son veður­fræðing­ur.

Ein­ar skrif­ar um kuldakastið á vefsvæði sínu og or­sök þess. „Oft­ast þegar svell­kalt heim­skautaloft steyp­ist yfir okk­ur er það fyr­ir sam­spil lægða fyr­ir aust­an eða norðaust­an landið og hæðar yfir Græn­landi. Fram­rás­inni fylg­ir þá gjarn­an hríðarveður þar sem lægðin legg­ur til raka sem kom­in er sunn­an að. Nú hátt­ar hins veg­ar svo til að kalda loftið berst til okk­ar vegna krafta á miklu stærri kvarða en þegar lægð er á flandri úti af Langa­nesi.“

Ein­ar seg­ir tvö áber­andi köld svæði til staðar, það minna norður af Græn­landi og Sval­b­arða en hitt yfir Síberíu. Þró­un­in næstu daga er sú að lokuð fyr­ir­stöðuhæð geng­ur þvert yfir heim­skautið og sam­ein­ast hæðar­hrygg við Ný­fundna­land. „Um leið og hæðirn­ar mynda sam­an einskon­ar brú yfir V-Græn­land og Baff­ins­land þving­ast kaldi loft­mass­inn að sama skapi til suðurs og í átt­ina til okk­ar.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert