Vilborg Arna Gissurardóttir, sem stefnir á suðurpólinn, er á góðu skriði nú þegar landar hennar eru á lokametrum jólaundirbúningsins. Til marks um yfirferð Vilborgar er að hún nálgast nú óðum annan suðurpólsfara sem lagði af stað 17 dögum á undan henni. Þar er á ferðinni Bandaríkjamaðurinn Aaron Lindsau en báðir þessir pólfarar hafa einsett sér að ganga einir á pólinn og án utanaðkomandi aðstoðar. Það er væntanlega hvorugu þeirra mjög að skapi að hittast á þessu ferðalagi sínu, en svo gæti þó allt eins farið ef sami skriður verður á Vilborgu og verið hefur síðustu daga.
Vilborg, sem er á göngu sinni í þágu Lífs styrktarfélags, sem berst fyrir betri aðbúnaði á Kvennadeild Landspítalans, hefur nú lagt að baki um 680 km af 1140 km leið sinni. Nú þegar jólin ganga í garð er líklega um 30 gráðu frost á slóðum Vilborgar, en reyndar hefur hitamælir hennar verið bilaður síðustu daga af óljósum ástæðum.
Líf styrktarfélag og allir velunnarar Kvennadeildar Landspítalans óska Vilborgu Örnu gleðilegra jóla og hvetur allar landsmenn til að hugsa til hennar í hlýjunni heima við jólatréð yfir hátirnar.
Fylgjast má með ferð Vilborgar og staðsetningu á bloggsíðu hennar www.lifsspor.is