Kærleikurinn fæddist í litlu barni

Frá Hallgrímskirkju.
Frá Hallgrímskirkju. mbl.is/Árni Sæberg

Ást Jósefs og Maríu og annarra para sem bíða eftir fæðingu barns er m.a. umfjöllunarefni jólahugleiðingar Guðbjargar Jóhannesdóttur, sóknarprests í Langholtskirkju, á mbl.is.

Starfsfólk mbl.is óskar öllum landsmönnum, nær og fjær, gleðilegra jóla.

Hér að neðan má lesa hjartahlýja jólahugleiðingu sem Guðbjörg skrifaði sérstaklega fyrir lesendur mbl.is:

Manstu hvernig þér leið þegar þú varðst ástfangin/n í fyrsta sinn?

Ég man að tilfinningin var svo sterk að ég fann fyrir henni í öllum kroppnum.  Fiðrildi í maganum í hvert sinn sem ég sá hann. 

Síðan líður tíminn átökin við lífið og hvort annað hefjast og ýmist skilja okkur að eða færa nær. 

Þegar ég fór í vinnuna í morgun er ég þó ekki frá því að alla vega eitt lítið hafi blakað vængjunum þegar ég kvaddi hann þar sem hann lá hrjótandi á koddanum.

Eitt af því sem að krökkunum okkar finnst einna skemmtilegast er þegar við rifjum saman upp sögurnar af því þegar: Við hjónin vorum að kynnast, þegar börnin fæddust, hvar við áttum heima, hver sagði hvað og hver var líkur hverjum. 

Þannig erum við að ég held öll við höfum þörf fyrir að rifja upp sögur sem að gefa okkur til kynna að við tilheyrum hvert öðru. 

Sögur af tímamótum, af þeim sem farin eru á undan okkur en höfðu áhrif. 

Sögur af erfileikum sem voru yfirstignir, sögur af sorgum, gleði ástum og samheldni. 

Það er til fræg saga í fjölskyldunni minni sem að segir frá því þegar við hjónin vorum þá búin að vera saman í eina viku.  Þarna vorum við á áttatíu kílómetra hraða í Ártúnbrekkunni og hann sagðist eiga von á barni með annarri konu!  Ég er ekki frá því að ástarfiðrildin í maganum hafi flögrað smá stund út um bílgluggann þarna í brekkunni. 

Krakkarnir okkar eru með það á hreinu að þessi aðferð hafi verið notuð til þess að ég gæti ekki hlaupið burt. 

Öllum þessum árum síðar finnst okkur þetta alveg ógurlega fyndin saga, vegna þess að við kunnum framhaldið sem er gott. Því heima hjá okkur býr núna flott tuttugu og eins árs stelpa sem var ómissandi þáttur upphafsins.  

Ég hugsa oft um þessa sögu á aðventunni.

Hugsa um hvernig ein svona lítil saga segir mikið. 

Því hún segir frá miklum tilfinningum og sorg og gleði. 

Segir frá kvíða og óöryggi fyrir framtíð. 

Segir frá eftirvæntingu og ást. 

Segir sögu sem minnir á hvernig lífið er, hvernig óvæntir atburðir breyta öllu sem áður var ætlað. 

Atburðir sem skora okkur á hólm og skera úr um hvernig við þroskumst og lifum.

Sagan af fæðingu Jesú er saga sem við eigum öll saman og hvert og eitt okkar getur átt þar hlutdeild. Við kunnum söguna öll og getum sagt hana öðrum. Það sem þó er mikilvægast er að við verðum hluti hennar. Að sagan verði okkur tilefni til að skoða eigið líf í því ljósi hennar og kanna hvaða merkingu það hefur að kærleikurinn sjálfur skyldi fæðast í litlu barni.

Kannski hefur Jósef greyinu liðið svona eins og mér þarna í Ártúnsbrekkunni þegar hann fékk tíðindin um barnið frá Maríu, ég veit það ekki en sagan segir að hann valdi að treysta unnustunni og hefja líf þeirra saman þrátt fyrir þessa mjög svo óvenjulegu uppákomu.

Það er margt sem breytist hjá ástföngnu pari við það að eignast lítið barn. Jósef var viðstaddur eftir því sem ráða má af sögunni, án efa fullur kvíða og eftirvæntingar. Hann hefur líka án efa þurft að læra að elska þetta litla barn sem var hans en þó ekki. 

Spor sem lærdómur er að setja sig í.

Það var ferli fyrir mig líka allt frá því að ég sat heima og beið þess að fá hringingu um að barn væri komið í heiminn, til þess að læra smátt og smátt að elska þetta litla barn sem var alls ekki mitt en samt.

Jósef og María, Guðbjörg og Sigurður, allir foreldrar á hverri tíð fá að upplifa yfirþyrmandi gleði og ábyrgð við það að eignast barn. 

Ábyrgð sem við höndlum hvert með okkar hætti. 

Barnið sem á fæðingarhátíð á jólum er okkur falið núna hverju og einu. Umönnun þess er falin í kærleiksverkunum sem við vinnum hvert annarri.  Elskunni sem við sýnum sjálfum okkur og öðru. Ábyrgð og trygglyndi, okkar. Einmitt þess vegna varð Guð að fæðast í litlu barni til þess að við fengjum að skilja þá miklu ábyrgð sem okkur er falin á kærleikanum sjálfum. 

Ég bið þess að við fáum öll lifað í kærleika, jafnt í Átrúnsbrekkum lífsins sem og á sólardögunum, ávallt með Guð okkur við hönd. 

Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur Langholtkirkju.
Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur Langholtkirkju. mbl.is/Árni Sæberg
Úr Langholtskirkju.
Úr Langholtskirkju. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka